Starf Eiðs Smára hangir á bláþræði

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starf Eiðs Smára Guðjohnsen hjá Knattspyrnusambandi Íslands, KSÍ, hangir á bláþræði samkvæmt heimildum mbl.is en Eiður hefur verið aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins frá því í desember á síðasta ári.

Myndband af aðstoðarþjálfaranum gengur nú um samfélagsmiðla þar sem hann er í annarlegu ástandi í miðbæ Reykjavíkur en mbl.is hefur myndbandið undir höndum.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hegðun Eiðs Smára utan vallar hefur verið til umfjöllunar á samfélagsmiðlum en mikið var rætt og ritað um atvik sem átti sér stað í sjónvarpsþættinum Vellinum á Símanum Sport fyrr í vetur þar sem hann virtist ölvaður í útsendingunni.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur Eiður tvo kosti hjá Knattspyrnusambandinu; að fara í meðferð eða missa starfið en hann hefur starfað hjá KSÍ frá árinu 2019, fyrst sem aðstoðarþjálfari U21-árs landsliðs karla og nú sem aðstoðarþjálfari A-landsliðsins.

Eiður Smári, sem er 42 ára gamall, er besti knattspyrnumaður sem Ísland hefur átt en hann varð Englandsmeistari með Chelsea, 2005 og 2006, og Spánar- og Evrópumeistari með Barcelona árið 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert