Þetta lofar góðu fyrir framhaldið

Elín Metta Jensen
Elín Metta Jensen mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elín Metta Jensen segir íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu á réttri leið en liðið mætir Írlandi í vináttulandsleik í annað sinn á nokkrum dögum á Laugardalsvellinum á þriðjudaginn.

„Við náðum góðum takti frá byrjun og vorum yfirburðarlið framan af,“ sagði Elín Metta í samtali við mbl.is í dag. Ísland vann 3:2-sigur á Írum á föstudaginn þar sem Agla María Albertsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir komu íslenska liðinu í væna forystu fyrir hálfleik. Írum tókst svo að minnka muninn með tveimur mörkum í síðari hálfleik.

„Það er svo ýmislegt sem við getum fínpússað eins og kom á daginn undir lokin. En við getum lært af síðasta leik og fáum sama mótherja aftur til að bæta okkur.“

Ísland hefur nú spilað þrjá vináttuleiki undir stjórn Þorsteins Halldórssonar en hann tók við þjálfun landsliðsins í vetur. Leikurinn á þriðjudaginn verður svo síðasti vináttuleikurinn áður en Ísland mætir Hollandi í undankeppni HM á Laugardalsvelli í september.

„Síðasta verkefni gegn Ítalíu var frumraun okkar með nýjum þjálfara og mér fannst það ganga mjög vel. Nú erum við að impra á svipuðum hlutum, við erum þannig lið að við tökum leiðsögn mjög vel og það hentar okkur að hafa þjálfara eins og Steina sem er tilbúinn að leiðbeina og gefur leikmönnum skýr hlutverk.

Það gengur vel, við getum náð ansi góðu spili upp og skapað færi sem er jákvætt. Við eigum líka eitthvað inni og getum bætt okkur enn meira. Þetta lofar góðu fyrir framhaldið,“ sagði Elín Metta við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert