Valsmenn endurheimtu toppsæti úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, þegar liðið fékk Breiðablik í heimsókn í tólftu umferð deildarinnar á Origo-völlinn á Hlíðarenda í kvöld. Leiknum lauk með 3:1-sigri Valsmanna sem leiddu 2:0 í hálfleik.
Damir Muminovic varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 26. mínútu þegar hann skallaði hornspyrnu Birkis Heimissonar í eigið net en hann var í harðri baráttu við Sebastian Hedlund um boltann í miðjum vítateig Breiðabliks.
Patrick Pedersen tvöfaldaði svo forystu Valsmanna á 43. mínútu eftir laglega sendingu frá vinstri.
Almarr Ormarsson skallaði boltann fyrir fætur Pedersens sem tók á móti boltanum, sneri á varnarmenn Blika, og þrumaði boltanum í átt að marki í snúningnum.
Anton Ari Einarsson var í boltanum en skotið fór af honum og í stöngina og inn og staðan því 2:0 í hálfleik, Valsmönnum í vil.
Guðmundur Andri Tryggvason bætti við þriðja marki Vals og sínu fyrsta marki fyrir félagið á 65. mínútu þegar hann fylgdi eftir frábæru stangarskoti Birkis Heimissonar.
Árni Vilhjálmsson klóraði í bakkann fyrir Breiðablik á 77. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Andra Rafni Yeoman innan teigs en lengra komust Blikar ekki og lokatölur 3:1 á Hlíðarenda.
Valsmenn fara með sigrinum upp í efsta sæti deildarinnar í 20 stig en Breiðablik er sem fyrr í fimmta sæti deildarinnar með 13 stig.
Valsmenn voru undir á öllum sviðum leiksins í fyrri hálfleik og Blikar sundurspiluðu þá á stórum köflum hálfleiksins. Sem betur fer fyrir Valsara tókst Blikum ekki að nýta yfirburði sína á vellinum og Íslandsmeistararnir refsuðu Kópavogsliðinu grimmilega fyrir mistökin.
Í síðari hálfleik lágu Valsmenn til baka og voru mun þéttari varnarlega en í fyrri hálfleik. Þeir lokuðu öllum svæðum á eigin vallarhelmingi og gáfu fá færi á sér. Ef Blikar náðu skoti á markið þá var Hannes Þór Halldórsson vandanum vaxinn í markinu.
Það er ótrúlegt að Blikum hafi ekki tekist að skora í fyrri hálfleik en það sýndi sig og sannaði í kvöld hversu ótrúlega dýrt það getur verið að nýta ekki færin sín. Það vantaði aðeins meiri klókindi á síðasta þriðjungi vallarins en þrátt fyrir að vera 0:2-undir í hálfleik var þetta einn best spilaði hálfleikur Blika í langan tíma.
Í seinni hálfleik átti liðið fá svör við varnarleik Valsmanna og þeir leikmenn sem komu inn á höfðu lítil sem engin áhrif á leikinn. Andri Rafn Yeoman kom reyndar inn á á 73. mínútu og fiskaði víti fjórum mínútum síðar en hann hefði mátt koma mun fyrr inn á.
Spilamennska Valsmanna í sumar hefur verið langt undir pari og maður bjóst við meiru en á sama tíma er liðið í efsta sæti deildarinnar og góð lið vinna leiki, þrátt fyrir að þau séu ekki að spila sinn besta bolta.
Blikar eru að finna taktinn og öllum leikmönnum liðsins virðist líða mun betur í 4-3-3 leikkerfinu en 3-4-3 leikkerfinu sem var lagt upp með í upphaf tímabils.
Valsmenn þurfa að spila betur ef þeir ætla sér Íslandsmeistaratitilinn enda fleiri lið sem gera tilkall til hans nú en síðasta sumar. Þá þurfa Blikar að fara að taka stig af liðinum fyrir ofan sig ef þeir ætla sér að vera í einhverri alvörutoppbaráttu.