Breiðablik vann dramatískan 3:2-sigur á HK á útivelli í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Blikar skoruðu tvö mörk undir lokin eftir að HK komst í 2:1 í seinni hálfleik.
Breiðablik fór betur af stað og skapaði sér fín færi fyrsta korterið. Gestirnir komust nálægt því að skora á 11. mínútu þegar Thomas Mikkelsen skallaði í slánna úr teignum og Árna Vilhjálmssyni tókst ekki að koma boltanum í markið í kjölfarið, þrátt fyrir að nánast standa á marklínunni.
Gestirnir fengu annað dauðafæri á 20. mínútu þegar Höskuldur Gunnlaugsson átti glæsilega fyrirgjöf á Kristinn Steindórsson sem var með opið mark fyrir framan sig á fjærstönginni en skallaði yfir.
Það kom því algjörlega gegn gangi leiksins þegar HK komst yfir á 22. mínútu en Arnþór Ari Atlason, fyrrverandi leikmaður Breiðabliks, skoraði með góðu innanfótarskoti utan teigs. Boltinn fór framhjá Antoni Ara Einarssyni á nærstönginni og átti markvörðurinn að gera betur.
Blikar héldu áfram að sækja eftir markið og eftir stórsókn kom loks jöfnunarmark á lokamínútu hálfleiksins. Kristinn Steindórsson skallaði boltann í netið eftir horn frá Höskuldi Gunnlaugssyni og voru hálfleikstölur 1:1.
Seinni hálfleikurinn var mun rólegri en sá fyrri framan af og var lítið um færi. Það dró hinsvegar til tíðina 20 mínútum fyrir leikslok þegar Martin Rauschenberg náði í vítaspyrnu er hann var klemmdur á milli tveggja varnarmanna. Birnir Snær Ingason fór á punktinn, skoraði af öryggi og kom HK aftur yfir.
Breiðablik gafst ekki upp því gestirnir fengu vítaspyrnu rúmum fimm mínútum fyrir leikslok er Viktor Karl Einarsson skaut boltanum í höndina á Guðmundi Júlíussyni innan teigs. Thomas Mikkelsen fór á punktinn, skoraði af öryggi og jafnaði í 2:2.
Aðeins tveimur mínútum síðar átti Viktor Karl Einarsson fyrirgjöf í teig HK-inga og Andri Rafn Yeoman skoraði með glæsilegu skoti úr þröngu færi og tryggði Breiðabliki dramatískan sigur.
HK hefur nú tapað þremur leikjum í röð og aðeins unnið einn leik í allt sumar. HK hefur m.a. tapað fyrir Stjörnunni sem var í basli, Keflavík sem eru nýliðar og svo núna köstuðu þeir frá sér góðri stöðu í lokin. HK þarf að fara að safna stigum og það sem fyrst ef ekki á illa að fara í sumar.
Blikar eru á leiðinni í hina áttina og hafa unnið fimm leiki af síðustu sex í deildinni og er liðið í öðru sæti fyrir vikið. Breiðablik fær Leikni úr Reykjavík í heimsókn í næst umferð og þar er dauðafæri til að halda sigurgöngunni áfram.
Það var gríðarlegt styrkleikamerki hjá Blikum að gefast ekki upp í erfiðri stöðu og ná í kærkominn sigur gegn HK, sérstaklega í ljósi þess að HK hefur haft tak á Blikum síðustu ár.