Sérstaklega sætt fyrir uppalinn HK-ing

Damir Muminovic fagnaði sigri á uppeldisfélaginu í kvöld.
Damir Muminovic fagnaði sigri á uppeldisfélaginu í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Damir Muminovic, varnarmaður Breiðabliks, ræddi við mbl.is eftir 3:2-sigur á HK í Kórnum í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Breiðablik var 1:2-undir þegar tíu mínútur voru til leiksloka en skoraði tvö mörk í lokin.

„Það sýnir hversu stór karakter er í þessu liði. Við hættum ekki að berjast, náum að snúa þessu við og klára leikinn sem er mjög sætt. Þetta eru alltaf öðruvísi leikir á móti HK. Við náðum að láta boltann ganga betur og spiluðum vel. Það var gott að klára þetta og nú einbeitum við okkur að næsta leik,“ sagði Damir, kátur með sigur í grannaslagnum.

Damir er uppalinn HK-ingur og hefur gengið illa hjá Blikum gegn erkifjendunum undanfarin ár. Sigurinn var því sérstaklega kærkominn. „Þetta er það, sérstaklega sætt fyrir mig líka þar sem ég er uppalinn HK-ingur. Það var mjög gott að vinna.“

Blikar hafa verið á góðu skriði á síðustu vikum og fór liðið upp í annað sætið með sigrinum í kvöld. „Við erum búnir að þroskast sem lið og læra frá því í fyrra. Við erum ekki að gera sömu mistök og í fyrra og nú liggur leiðin bara upp á við,“ sagði Damir.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka