„Þurfum að bæta okkur á öllum sviðum“

Ólafur Jóhannesson þungt hugsi á hliðarlínunni í leiknum í kvöld.
Ólafur Jóhannesson þungt hugsi á hliðarlínunni í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Jóhannesson, annar þjálfara FH, sagði betra liðið hafa unnið þegar Hafnarfjarðarliðið laut í gras, 0:2, gegn Val í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld.

„Mér fannst Valsmennirnir mjög sterkir og við komumst nánast aldrei nálægt þeim. Þeir voru með yfirhöndina allan leikinn,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is eftir leik.

Nokkuð jafnræði var í fyrri hálfleiknum þótt færin sem Valur fékk hafi verið hættulegri.

„Já, við svona héngum í þeim í fyrri hálfleik, þannig lagað, en þeir opnuðu okkur ansi oft og svo keyrðu þeir yfir okkur í seinni hálfleik,“ bætti hann við, en markalaust var í hálfleik áður en Valsmenn tóku leikinn alfarið yfir og skoruðu bæði mörk sín í síðari hálfleiknum.

Eftir að Ólafur tók við liðinu með Davíð Þór Viðarssyni á dögunum hefur uppskeran áfram verið rýr í kjölfar þess að Logi Ólafsson var látinn taka pokann sinn, aðeins eitt stig í tveimur leikjum. Hvað þarf FH að bæta í sínum leik til þess að koma sér á beinu brautina?

„Við þurfum bara að bæta okkur á öllum sviðum og koma okkur í þann gír sem við teljum okkur eiga að vera í. Það er næsta verkefni okkar og það þurfa allir að leggjast á eitt með að gera það,“ sagði Ólafur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert