Breiðablik mætir færeysku meisturunum KÍ frá Klaksvík í fyrsta leiknum í 1. umferð Meistaradeildar kvenna í fótbolta en dregið er til fyrstu umferðanna í dag.
Fjögur lið eru dregin í hvern riðil í 1. umferðinni og Breiðablik var í efri styrkleikaflokki og mætir því liði úr neðri styrkleikaflokki hinn 18. ágúst.
Þremur dögum síðar mun sigurvegarinn í þessum leik mæta sigurvegaranum í hinum leik riðilsins og þar verður í húfi sæti í 2. umferð.
Hin tvö liðin í riðlinum eru Gintra frá Litháen og Flora Tallinn frá Eistlandi. Riðillinn verður leikinn á heimavelli einhvers af þessum fjórum liðum.
KÍ hefur verið yfirburðalið í Færeyjum um árabil og tekur nú þátt í Meistaradeildinni í 19. skipti en aðeins tvö lið hafa verið jafnoft með, Bröndby frá Danmörku og Sarajevo frá Bosníu. KÍ er núna með tveggja stiga forskot á EBS/Skála í færeysku deildinni og hefur unnið sex leiki og gert fimm jafntefli í fyrstu ellefu umferðunum.
Gintra er langsterkasta lið Litháens og þrautreynt í Evrópukeppni. Liðið hefur unnið alla tíu leiki sína í yfirstandandi deildakeppni í Litháen og er með átta stiga forystu. Flora Tallinn er efst í Eistlandi með 25 stig af 27 mögulegum en þó aðeins tveggja stiga forystu á næsta lið.