Blikar sannfærandi gegn Leikni

Davíð Ingvarsson með boltann í dag.
Davíð Ingvarsson með boltann í dag. Ljósmynd/Jón Helgi Pálmason

Breiðablik vann öruggan 4:0-sigur á Leikni úr Reykjavík í Pepsi Max-deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í dag. Breiðablik er með 22 stig í öðru sæti, fimm stigum á eftir Val og með leik til góða. Leiknir er í tíunda sæti með ellefu stig.

Breiðablik byrjaði miklu betur og sótti án afláts á fyrstu mínútum leiksins. Það skilaði sér í fyrsta markinu á sjöundu mínútu. Kristinn Steindórsson var þá fyrstur að átta sig í teignum eftir hornspyrnu og skoraði af stuttu færi.

Eftir markið voru Leiknismenn mun sprækari og sköpuðu sér góð færi til að jafna metin. Andrés Manga Escobar fékk það besta er hann slapp einn í gegn, fór framhjá Antoni Ara í markinu en Damir Muminovic bjargaði glæsilega á línu.

Það var svo nokkuð gegn gangi leiksins þegar Blikar bættu við sínu öðru marki á 27. mínútu. Rétt eins og í fyrsta markinu lentu Leiknismenn í vandræðum með hornspyrnu og í þetta skiptið kláraði Viktor Örn Margeirsson af stuttu færi og var staðan í hálfleik 2:0.

Guy Smit, markvörður Leiknis, meiddist snemma í seinni hálfleik og Viktor Freyr Sigurðsson leysti hann af hólmi. Viktor þurfti í tvígang að taka á honum stóra sínum; fyrst varði hann glæsilega frá Davíð Ingvarssyni og síðan Kristni Steindórssyni.

Viktor kom hinsvegar engum vörnum við á 73. mínútu þegar varamaðurinn Gísli Eyjólfsson skoraði með hnitmiðuðu skoti við vítateigslínuna og staðan orðin 3:0.  Varamaðurinn bætti við sínu öðru marki fjórum mínútum síðar er hann var mættur inn í teiginn til að klára af stuttu færi eftir sendingu frá Kristni Steindórssyni og var sannfærandi sigur Breiðabliks kórónaður. 

Vængbrotnir Leiknismenn

Það vantaði bæði Sævar Atla Magnússon og Brynjar Hlöðversson í lið leiknis og þá meiddist Guy Smit markvörður í seinni hálfleik. Leiknir er ekki með breiðasta hópinn í deildinni og má illa við slíkum áföllum. 

Án Sævars og Brynjars var róðurinn þungur gegn spræku Blikaliðið sem er með mikið sjálfstraust. Leiknir hefði vissulega getað jafnað í stöðunni 1:0 en eftir það tóku Blikar öll völd og var sigurinn afar verðskuldaður. 

Leiknismenn halda baráttunni sinni um að halda sætinu í deildinni áfram á meðan Breiðablik ætlar sér að þjarma að toppliði Vals. 

Breiðablik 4:0 Leiknir R. opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka