Guðjón tekinn við Ólafsvíkingum á ný

Jóhann Pétursson formaður Víkings og Guðjón Þórðarson handsöluðu samninginn á …
Jóhann Pétursson formaður Víkings og Guðjón Þórðarson handsöluðu samninginn á Ólafsvíkurvelli í dag. Ljósmynd/Þröstur Albertsson

Guðjón Þórðarson mun taka við þjálfun meistaraflokks karlaliðs Víkings frá Ólafsvík að nýju og semja út næsta tímabil.

Mbl.is hefur fengið þetta staðfest hjá Ólafsvíkingum. Aðeins er eftir að ganga formlega frá samningnum.

Guðjón stýrði Víkingi á síðasta tímabili þegar liðið endaði í 9. sæti 1. deildarinnar, Lengjudeildarinnar, en hætti að því loknu.

Gunnar Einarsson tók við af honum síðastliðið haust en sagði starfi sínu sem þjálfari lausu á föstudag í kjölfar þess að liðið tapaði 0:7 á heimavelli gegn Þrótti úr Reykjavík í botnslag kvöldið áður.

Gengi Ólafsvíkinga hefur verið bölvanlegt á tímabilinu þar sem liðið er langneðst í deildinni með aðeins eitt stig að loknum átta umferðum, sjö stigum frá öruggu sæti.

Verkefnið er því ærið hjá Guðjóni er hann mun freista þess að halda Víkingi í næstefstu deild.

Uppfært kl. 16.05
Víkingar í Ólafsvík hafa staðfest að samningur hafi verið undirritaður við Guðjón Þórðarson og hann gildi út keppnistímabilið 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert