„Hef aldrei séð aðra eins frammistöðu hjá markmanni“

Arnar Grétarsson fylgist með sínum mönnum í kvöld.
Arnar Grétarsson fylgist með sínum mönnum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og KR áttust við í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld og var leikið á Dalvíkurvelli. 

Þriðja heimaleikinn í röð mátti Arnar Grétarsson horfa upp á sína menn í KA tapa í leik sem þeir voru að spila nokkuð vel. Í tveimur fyrri leikjunum, gegn Víkingi og Val, voru það vítaklúður sem orsökuðu tap en í kvöld var það lélegur varnarleikur sem gaf tíu KR-ingum mörkin sem skildi liðin að. Beitir Ólafsson varði svo einstaklega vel í marki KR en KA átti 24 marktilraunir í leiknum auk skota sem fóru í þéttskipaðan varnarmúr KR-inga. 

„Það eru vonbrigði að hafa tapað leiknum. Við vorum nefnilega að spila flottan leik og gera margt vel. Allan leikinn vorum við að skapa færi til að skora mörk en boltinn vildi bara ekki inn. Svo gerum við afar dýr mistök rétt fyrir hálfleik. Erum þá nýbúnir að jafna leikinn eftir ódýrt mark og gefum þeim svo víti. Það er dýrt og þeir fara inn með 2:1 í hálfleik. Það er oft erfitt að spila ellefu gegn tíu. Mér fannst við gera það mjög vel og ég verð nú bara að segja að ég hef aldrei séð aðra eins frammistöðu hjá markmanni eins og hjá Beiti í kvöld. Hans frammistaða skilur á milli. Frammistaðan hjá okkur var frábær en úrslitin skelfileg.“ 

„Nú er bara að halda áfram. Það þýðir ekkert að velta sér meira upp úr þessum leik. Nú er reyndar lengra í liðin fyrir ofan okkur og þessir leikir hér á Dalvík hafa því miður ekki skilað mörgum stigum þótt við séum að spila þá vel, svona heilt yfir. Við getum bætt okkur í því að gefa ekki svona mörk eins og í dag en líka að nýta færin betur. Nú bíður okkar erfitt verkefni að fara í Árbæinn í næsta leik. Við þurfum að sækja þrjú stig þangað.“ 

Grétar Snær Gunnarsson og Elfar Árni Aðalsteinsson eigast við.
Grétar Snær Gunnarsson og Elfar Árni Aðalsteinsson eigast við. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Já það hefur gengið vel á útivöllunum, fjórir sigurleikir og tvö jafntefli í deildinni. Er ferðagleði í liðinu? 

„Við höfum verið að skila svipaðri frammistöðu í öllum leikjunum en ná betri úrslitum á útivelli. Mér finnst frammistaðan í leikjunum hér á Dalvík hafa átt að skila okkur mun fleiri stigum en við höfum verið að fá. Það má hafa áhyggjur af því hvað við erum að nýta þessi færi sem við erum að fá og þá yfirburði sem við höfum haft í leikjunum. Það er lífsnauðsynlegt fyrir okkur að taka fleiri stig úr næstu leikjum.“ 

Fyrir þennan leik var KA aðeins búið að fá á sig fimm mörk. Nú fáið þið á ykkur tvö mörk þegar þið eruð manni fleiri, bæði ansi ódýr og einföld. 

„KR átti nokkur góð upphlaup en voru ekki að búa til nein góð færi fyrir utan þetta tvennt. Við vorum hins vegar að komast í eðalstöður trekk í trekk. Það er líka mjög svekkjandi að sjá þau færi klúðrast. Þetta 2:1 mark rétt fyrir hlé var eins og vítamínsprauta fyrir KR. Við vorum nýbúnir að jafna svo þetta hefði getað verið öfugt, að við færum með byr í seglin inn í hálfleikinn,“ sagði Arnar, nokkuð ánægður með leik sinna manna en svekktur með uppskeru kvöldsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka