„Þessi leikur gegn Racing leggst frábærlega í mig,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.
Blikar mæta Racing frá Lúxemborg í fyrri leik liðanna í 1. umferð Sambandsdeildar UEFA á Josy Barthel-leikvanginum í Lúxemborg á morgun.
„Það eru forréttindi að fá að taka þátt í Evrópukeppni og eitthvað sem leikmenn liðsins hafa unnið fyrir. Við getum satt best að segja varla beðið eftir því að spila á morgun.
Þetta er líka góður tímapunktur fyrir okkur til þess að spila Evrópuleik. Það hefur verið þétt keyrsla í deildinni heima fyrir og þetta brýtur aðeins upp tímabilið.
Takturinn er góður í liðinu og stemningin í kringum þetta er aðeins öðruvísi en maður er vanur sem gefur þessu smá krydd í þokkabót,“ sagði Óskar Hrafn.
Tímabilinu í úrvalsdeildinni í Lúxemborg lauk í lok maí og mótherjar Blika eru því á miðju undirbúningstímabili en Racing hafnaði í fjórða sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.
„Við vitum satt best að segja ekki mikið um þetta Racing-lið. Þeir eru með nýjan þjálfara og eru bara á sínu undirbúningstímabili. Þeir eru búnir að spila einhverja fjóra æfingaleiki fyrir luktum dyrum þannig að við erum aðeins að renna blint í sjóinn með það út í hvað við erum að fara.
Það sem við vitum hins vegar er að þjálfarinn þeirra er reynslumikill og hefur stýrt liðum á borð við Arminia Bieleféld og Kaiserslautern í Þýskalandi. Þeir vilja pressa, spila út frá marki og liðið þeirra er að stórum hluta samansett af frönskum leikmönnum með bakgrunn úr sterkum frönskum akademíum.
Við eigum að vera í betra leikformi en þeir, en þetta er klárlega lið sem vill spila jákvæðan fótbolta, bæði sóknar- og varnarlega. Það er erfitt að gera sér grein fyrir styrkleika deildarinnar í Lúxemborg en hún verður sífellt sterkari.
Sem dæmi hefur eitt af toppliðum deildarinnar farið tvívegis inn í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á síðustu þremur árum, sem segir manni ýmislegt. Í grunninn þurfum við því að spila okkar leik, vera við sjálfir, og vera bæði hugrakkir og djarfir.“
Blikar ætla sér áfram í næstu umferð en taka einn leik fyrir í einu.
„Elfar Freyr Helgason er ennþá að glíma við meiðsli og Árni Vilhjálmsson er að koma til baka eftir að hafa meiðst gegn HK í lok júní. Hversu mikið Árni mun spila verður eiginlega bara að koma í ljós og það ætti að skýrast betur eftir æfinguna í dag. Að öðru leyti eru allir leikmenn liðsins heilir heilsu og klárir í slaginn.
Markmiðið er fyrst og síðast að vinna leikinn á morgun. Við byrjum á því og svo sem ekkert annað sem við getum hugsað um þannig séð. Svo kemur seinni leikurinn bara í næstu viku. Við viljum fara eins langt og við getum í þessari keppni og næla þannig í dýrmæta reynslu. Það er gríðarlega gott fyrir íslensk lið að fá leiki gegn erlendum andstæðingum og þetta er eitthvað sem við getum lært mikið af,“ bætti Óskar Hrafn við í samtali við mbl.is.