„Það var margt ágætt en Blikar voru betri og unnu verðskuldað. Það er spurning með 4:0 en þær áttu klárlega skilið að vinna,“ sagði Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 0:4-tap liðsins gegn Breiðabliki í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld.
„Það var barátta og vinnusemi í mínu liði en meiri gæði í Blikaliðinu. Við hefðum mátt þora betur að halda í boltann og spila honum. Það sjá það allir að ákveðnir leikmenn hlaupa mjög hratt og þær nýttu völlinn völlinn vel í dag og stungu okkur af,“ bætti Kjartan við um leikinn.
Fylkir er enn í fallsæti eftir tapið og aðeins með tvo sigra í sumar. Liðið missti nokkra af sínum bestu leikmönnum fyrir leiktíðina og fleiri leikmenn hverfa á braut á næstu vikum.
„Þetta verður áfram barátta. Fylkismenn vissu fyrir tímabilið að þetta yrði strembið. Það eru líka leikmenn að fara út. Það verða nokkrar sem fara,“ sagði Kjartan.