Hefur ekki ákveðið að hætta

Helgi Valur Daníelsson í afmælisleiknum í kvöld.
Helgi Valur Daníelsson í afmælisleiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Þetta var frábært, að ná sigrinum var aðalatriðið,“ segir Helgi Valur Daníelsson, miðjumaðurinn sterki hjá Fylki, en hann fagnaði í dag 40 ára afmæli sínu. Hann fékk laglega afmælisgjöf, þar sem lið hans vann góðan 2:0 heimasigur á KA-mönnum í 12. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, auk þess sem Fylkismenn gáfu honum veglegt úr í afmælisgjöf. 

Helgi Valur segir að sér hafi þótt verst að hann meiddist örlítið í upphituninni, en hann harkaði það af sér fram á 68. mínútu síðari hálfleiks. „Leikaðferð okkar gekk upp að vissu marki, við fengum færi og þeir fengu færi, og úrslitin endurspegluðu kannski ekki alveg leikinn, hann hefði getað endað 4:4“ segir Helgi Valur. 

-En nú hefurðu sagst ætla að hætta eftir tímabilið? „Nei, það er alveg rangt, ég las bara um það í blöðunum og hef ekki staðfest það við neinn,“ segir Helgi Valur. En gæti hann þá hugsað sér að halda áfram? „Eins og síðustu þrjú árin hef ég bara tekið eitt ár í einu, og ég hef ekkert ákveðið að hætta. Auðvitað er það alltaf líklegt, en við sjáum hvernig það fer, hvernig manni líður að leiktímabili loknu.“

Hann segir að sigurinn í kvöld hafi verið kærkominn, þar sem liðið hafi verið svekkt með úrslitin gegn HK í síðasta leik. „Við höfum annars verið fínir og heimasigur núna var mjög mikilvægur. Við vitum að þetta verður erfitt, en við erum alltaf að bæta okkur og tökum þessa frammistöðu með okkur í næsta leik,“ segir Helgi Valur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert