Gamla ljósmyndin: Mörg hundruð landsleikja mynd

Morgunblaðið/Friðrik Tryggvason

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Friðrik Tryggvason sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is um tíma náði glettilega mörgum kempum saman á eina ljósmynd þegar erkifjendurnir KR og Valur mættust í vesturbæ Reykjavíkur sumarið 2008. Íslandsmótið í knattspyrnu var þá í fullum gangi eins og nú. 

Ekki stilltu þær sér sérstaklega upp fyrir ljósmyndarann enda nokkur barátta í gangi á vellinum eins og sjá má en Sif Atladóttir úr Val virðist vera með boltann og Hólmfríður Magnúsdóttir úr KR rennir sér á hann. Á myndinni má einnig sjá Katrínu Jónsdóttur úr Val, Olgu Færseth úr KR og Eddu Garðarsdóttur úr KR sem fylgjast með gangi mála. 

Þrjár þeirra eru gjaldgengar í 100 leikja klúbbnum svokallaða og hafa því leikið 100 A-landsleiki eða fleiri. Katrín var raunar leikjahæst lengi vel með sína 133 A-landsleiki eða þar til Sara Björk Gunnarsdóttir sló landsleikjamet hennar í fyrra. Edda Garðarsdóttir lék 103 landsleiki og Hólmfríður hefur leikið 113 landsleiki. 

Sif er mjög nærri 100 A-landsleikjum með sína 97 leiki og gæti hæglega náð inn í 100 leikja klúbbinn þar sem hún er enn leikmaður í efstu deild í Svíþjóð með Kristianstad. Olga lék 54 A-landsleiki en færri leikir voru í boði þegar hún var upp á sitt besta. Olga er hins vegar einhver almesti markvarðahrellir sem leikur hefur á Íslandsmótinu og fyrir landsliðið skoraði hún 14 mörk. 

Myndin birtist í íþróttablaði Morgunblaðsins hinn 18. ágúst árið 2008. Um það leyti voru lið KR og Vals geysilega vel mönnuð og leikir liðanna hálfgerðir úrslitaleikir um titilinn. Hraustlega þótti gengið fram bæði á vellinum og á áhorfendapöllunum þegar liðin mættust. KR vann Val 3:2 í umræddum leik í Landsbankadeildinni eins og hún hét þá en Valur stóð hins vegar uppi sem Íslandsmeistari um haustið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka