KR og Breiðablik skildu jöfn, 1:1, í hörkuleik í 13. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Meistaravöllum í kvöld. Bæði mörkin komu í síðari hálfleik og voru úrslitin á endanum sanngjörn.
Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik þar sem bæði fengu prýðis færi til þess að skora.
Besta færið fengu KR-ingar þegar Kristinn Jónsson renndi boltanum inn fyrir á Kjartan Henry Finnbogason sem var kominn í mjög gott skotfæri en skotið hans naumlega framhjá markinu.
Hvorugt liðið hafði erindi sem erfiði fyrir framan markið en spiluðu bæði vel að öðru leyti. Markalaust var því í leikhléi.
Strax í upphafi síðari hálfleiks kom hins vegar fyrsta markið. Kennie Chopart átti þá laglega fyrirgjöf af vinstri kanti í kjölfar hornspyrnu, fann Pálma Rafn Pálmason á nærstönginni, sem flikkaði boltanum áfram á Kjartan Henry sem skallaði boltann í fjærhornið af stuttu færi, 1:0.
Blikar hertu aðeins tökin í kjölfar marksins og þrátt fyrir að fá engin opin marktækifæri fengu þeir í tvígang dæmda aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Eftir að skot Alexanders Helga Sigurðarsonar hafði geigað illa var komið að Höskuldi Gunnlaugssyni fyrirliða að reyna fyrir sér um miðjan hálfleikinn.
Hann ákvað að flækja hlutina ekkert og þrumaði boltanum einfaldlega í markmannshornið úr aukaspyrnunni án þess að Beitir Ólafsson kæmi nokkrum vörnum við, 1:1.
Fleiri urðu mörkin þó ekki og sættust liðin á jafnan hlut, þótt hvorugt þeirra sé eflaust sátt við eitt stig hvort enda gerir jafntefli lítið fyrir þau í baráttunni í efri hluta deildarinnar.
Sigur hefði hjálpað báðum liðum að saxa á forskot Vals, sem er í toppsætinu og tapaði leik sínum gegn ÍA í gær.
Breiðablik fer með jafnteflinu upp fyrir Víking úr Reykjavík og er nú í öðru sætinu, en KR heldur kyrru fyrir í fjórða sæti.
Breiðablik á þó enn leik til góða á Val og með sigri í honum minnka Blikar forystuna í eitt stig.