Elín orðuð við Inter

Elín Metta Jensen í leik með Val í sumar.
Elín Metta Jensen í leik með Val í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska landsliðskonan Elín Metta Jensen er orðuð við ítalska knattspyrnuliðið Internazionale frá Mílanó.

Þetta kemur fram á Instagram-aðgangi Soccerdonna, þýska fjölmiðilsins sem einblínir á kvennaknattspyrnu.

Þar segir að sóknarmaðurinn Elín Metta, sem leikur með Val hér á landi, sé nálægt því að komast að samkomulagi við Inter, sem lenti í sjöunda sæti A-deildarinnar á Ítalíu á síðasta tímabili.

Elín Metta hefur í gegnum árin fengið fjölda tilboða um að fara út í atvinnumennsku en ávallt hafnað þeim þar sem hún er í krefjandi námi hér á landi. Er hún í læknanámi við Háskóla Íslands.

Hún er 26 ára gömul og á að baki 161 deildarleik með uppeldisfélagi sínu Val, þar sem hún hefur skorað 122 mörk.

Þá á hún að baki 58 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur skorað 16 mörk í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka