Keflavík vann í kvöld ótrúlegan 2:0-sigur á Breiðabliki í Pepsi Max-deild karla í fótbolta á heimavelli. Breiðablik skapaði sér fullt af virkilega góðum færum, en inn vildi boltinn hreinlega ekki. Keflavík skapaði sér ekki mikið en skoraði mörkin.
Breiðablik var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og skapaði sér nokkur úrvalsfæri. Hvað eftir annað varði Sindri Kristinn Ólafsson vel í marki Keflavíkur. Jason Daði Svanþórsson, Thomas Mikkelsen og Árni Vilhjálmsson komust allir í fín færi en fundu ekki leiðina framhjá Sindra.
Það var því algjörlega gegn gangi leiksins þegar Joe Gibbs kom Keflavík yfir á 43. mínútu. Anton Ari Einarsson í marki Breiðabliks gaf á Viktor Örn Margeirsson og Viktor spyrnti boltanum beint í Gibbs og í markið. Staðan í hálfleik var því 1:0, Keflavík í vil.
Breiðablik byrjaði seinni hálfleikinn á því að komast í gott færi því Mikkelsen slapp einn í gegn í blábyrjun hálfleiksins. Daninn setti boltann framhjá og það átti eftir að reynast dýrkept.
Strax í næstu sókn fékk Keflavík aukaspyrnu sem Ingimundur Aron Guðnason tók og hann sendi boltann hnitmiðað á kollinn á Frans Elvarssyni sem skoraði með fallegum skalla í bláhornið fjær og heimamenn því óvænt komnir í tveggja marka forystu.
Thomas Mikkelsen fékk besta færi Breiðablik í seinni hálfleik en hann skaut í stöng úr vítaspyrnu á 55. mínútu. Breiðablik hélt áfram að skapa sér færi eftir það, en allt kom fyrir ekki og Keflavík fagnaði.
Breiðablik skapaði sér nægilega mörg færi til að vinna skrautlegan 7:2-sigur en þess í stað gekk nákvæmlega ekki neitt upp hjá liðinu fyrir framan markið. Breiðablik hefði getað spilað þrjá heila leiki í röð án þess að skora í kvöld, þetta var einfaldlega einn af þessum dögum.
Eftir glæsilega frammistöðu í Vínarborg gegn Austria Vín í Sambandssdeildinni í vikunni, er það áfall að mæta á heimavöll liðs í fallbaráttu og tapa. Breiðablik er nú sjö stigum á eftir toppliði Vals og í hættu á að missa bæði Val og Víking of langt frá sér.
Þú skapar þína eigin heppni og Keflavíkurliðið barðist fyrir hverjum einasta bolta og skildi allt eftir á vellinum. Þjálfarateymi Keflavíkur á mikið hrós skilið fyrir að safna 16 stigum í kassann hingað til og vera sex stigum fyrir ofan fallsæti. Keflvíkingar litu ekki vel út framan af móti og voru að fá mörg mörk á sig.
Keflavík hefur hingað til gert vel í að safna stigum gegn liðum í kringum sig, en það er stórt skref að mæta eins sterku liðið og Breiðabliki og vinna. Segja má að sigurinn sé sá fyrsti hjá Keflavík í sumar sem liðið er ekki í beinni samkeppni við, en markmið Keflavíkur hlýtur að vera að halda sæti sínu í deildinni á meðan Blikar ætla sér mun stærri hluti.