Enn einn fjögurra marka sigurinn á Kópavogsvelli

Jason Daði Svanþórsson skorar annað markið sitt í kvöld.
Jason Daði Svanþórsson skorar annað markið sitt í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Breiðablik vann frækinn 4:0 sigur á Víkingum í kvöld í Pepsi Max-deild karla. Þetta er í fimmta sinn í sumar sem Blikar vinna leik á heimavelli með fjórum mörkum gegn engu, en þeir skoruðu tvö mörk í sitthvorum hálfleiknum. 

Ljóst var fyrir leik að úrslit hans gætu ráðið miklu um toppbaráttu efstu deildar, en Víkingar voru með 29 stig í öðru sæti deildarinnar fyrir leik, einu stigi á eftir toppliði Vals, á meðan Blikar sátu í fjórða sætinu með 23 stig og einn leik til góða.

Víkingar hófu leikinn af miklum krafti og leit fyrsta dauðafæri leiksins ljós eftir örfáar sekúndur, en þá komst Helgi Guðjónsson einn á móti Antoni Ara í marki Breiðabliks. Skot hans fór hins vegar yfir þverslána. Helgi var í byrjunarliði Víkinga í stað Nikolajs Hansen, markahæsta manns deildarinnar, sem var í leikbanni. 

Liðin skiptust á að sækja á upphafsmínútunum, en hápressa Víkinga í upphafi leiks skilaði þeim betri og hættulegri færum. Kvame Quee skaut yfir á 3. mínútu og Kári Árnason skallaði boltann framhjá á þeirri níundu, svo dæmi séu tekin. Eftir um tólf mínútna leik náðu Blikar hins vegar vopnum sínum og fóru að svara pressu Víkinganna betur. 

Jason Daði Svanþórsson braut ísinn á 34. mínútu með laglegu skoti, en hann hljóp þá fram völlinn með boltann eftir að skyndisókn gestanna rann út í sandinn. Hann reyndi stungusendingu á Alexander Helga Sigurðarson, en Sölvi Geir Ottesen hreinsaði boltann frá. Sú hreinsun var þó ekki nægilega góð, þar sem boltinn fór beinustu leið aftur á Jason Daða, sem tók nokkur skref með knöttinn að vítateigslínunni og skaut honum laglega framhjá Þórði Ingasyni í marki Víkinga. 

Um þremur mínútum síðar fengu Blikar aukaspyrnu á hættulegum stað, sem Höskuldur Gunnlaugsson tók. Fast skot hans fór beint á Þórð, sem náði þó ekki að slá boltann lengra en út í markteig. Þar lúrði Jason Daði eins og sönnum framherja sæmir og kláraði færið vel. Blikar fóru því með verðskuldaða tveggja marka forystu inn í leikhléið, þrátt fyrir yfirburði Víkinga í upphafi leiks. 

Blikar töldu enga ástæðu til þess að slaka á eftir leikhlé, og voru einungis þrjár mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Viktor Örn Margeirsson skallaði boltann í netið eftir stutta og vel útfærða hornspyrnu sem Jason Daði og Höskuldur tóku. 

Gísli Eyjólfsson rak svo smiðshöggið á frábæran leik Blika á 55. mínútu, en Jason Daði var þá kominn einn inn fyrir, en Þórður varði skot hans ágætlega. Jason Daði skallaði hins vegar frákastið að marki, og virtist sem að boltinn væri á leiðinni inn fyrir. Gísli ákvað hins vegar að taka enga sénsa, þrátt fyrir að Jason Daði væri við það að skora þrennu og „stal“ markinu á síðustu stundu. 

Það sem eftir lifði leiks voru Blikar líklegri til þess að bæta við mörkum en Víkingar að minnka muninn. Adam Ægir Pálsson, sem kom inn á sem varamaður á 60. mínútu var líklegastur Víkinga til þess að minnka muninn, en skalli hans á 83. mínútu fór naumlega framhjá. Sölvi Snær Guðbjargarson fékk svo hið fínasta tækifæri til þess að bæta við fimmta marki Breiðabliks á 89. mínútu, en inn vildi boltinn ekki. 

Öruggur heimasigur Breiðabliks var því niðurstaðan, en þetta var í fimmta sinn í sumar sem þeir vinna heimaleik sinn með fjórum mörkum gegn engu. Er það ekki síst merkilegt í ljósi þess að þeir hafa unnið síðustu sex heimaleiki sína í röð, og hafa Blikar því einungis í eitt skipti af sex ekki náð að skora fjögur mörk. Enn eru fjórir heimaleikir eftir í deildarkeppninni hjá Blikum, og verður ansi forvitnilegt að sjá hvernig öðrum liðum mun ganga á Kópavogsvelli það sem eftir lifir sumars. 

Víkingar fengu óþægilegan skell í kvöld, sem gæti reynst dýrkeyptur í toppbaráttunni. Enginn ætti hins vegar að afskrifa Blika úr meistarabaráttunni, sér í lagi ef þeir halda áfram að spila eins og þeir gerðu megnið af leiknum. 

Breiðablik 4:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Hér eru þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert