Blikar nýttu ekki færin í Aberdeen

Árni Vilhjálmsson í baráttunni við Ross McCrorie, varnarmann Aberdeen og …
Árni Vilhjálmsson í baráttunni við Ross McCrorie, varnarmann Aberdeen og markvörðinn Joe Lewis í fyrri leik liðanna. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik er úr leik í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu eftir 2:1-tap gegn Aberdeen út í Skotlandi í 3. umferðinni í kvöld. Aberdeen vann fyrri leikinn á Laugardalsvelli 3:2 og einvígið því samanlagt 5:3.

Blikar fóru hræðilega af stað í Kópavoginum í síðustu viku og voru strax tveimur mörkum undir eftir ellefu mínútna leik. Í Aberdeen var upphaf leiksins allt annars eðlis og fengu bæði lið úr litlu að moða lengi framan af. Það átti þó eftir að losna um sóknarmenn beggja liða er leið á fyrri hálfleikinn og fengu Blikar besta færi leiksins hreinlega á 32. mínútu. Viktor Karl Einarsson skaut þá framhjá af stuttu færi, þökk sé frábærum varnarleik Ross McCrorie sem tókst að trufla hann. Viktor hafði þá fengið sendingu frá Árna Vilhjálmssyni eftir samspil þeirra, en sóknin hófst á spretti Jasons Daða Svanþórssonar sem rak knöttinn fram völlinn.

Eftir byrjunina döpru á Kópavogsvelli skoruðu þeir Gísli Eyjólfsson og Árni og tókst Blikum að jafna metin áður en Skotarnir skoruðu aftur til að taka 3:2-forystu með sér heim. Breiðablik þurfti því að vinna leikinn í kvöld til að fara áfram en síðari hálfleikurinn fór illa af stað. Funso Ojo, sem var nýkominn inn á, fór illa með Damir Muminovic inn í vítateig og sendi boltann þvert fyrir markið þar sem Ryan Hedges skoraði af stuttu færi.

Blikum tókst þó aftur að svara. Gísli skoraði laglegt mark á 59. mínútu, sneri boltann utan teigs í vinstra hornið eftir fína sendingu frá Viktori Karli. Staðan 1:1 í Aberdeen og 4:3 fyrir Skotunum samanlagt. Blikar efldust við markið og leituðu að öðru, sem hefði komið leiknum í framlengingu.

Aftur fengu þeir svo kjörið marktækifæri og aftur fór það í súginn, á 64. mínútu. Viktor Karl hirti þá boltann af af Lewis Ferguson rétt utan vítateigs Aberdeen, renndi honum til hægri á Jason Daða sem reyndi skot en Lewis var snöggur úr markinu og varði vel. Frákastið barst svo til Árna sem skaut yfir markið.

Heimamenn gerðu svo út um einvígið á 70. mínútu er Hedges skoraði sitt annað mark, sneri boltann laglega í fjærhornið með skoti frá vítateigslínunni eftir að Christian Ramirez lagði hann upp fyrir samherja sinn. Eftir þetta var róðurinn einfaldlega orðinn þungur, staðan 5:3 samanlagt fyrir heimamenn.

Aberdeen mætir næst Qarabag frá Aserbaídsjan en liðið sem vinnur það einvígi fer áfram í riðlakeppnina. Evrópuævintýri Blika er hins vegar úti þetta árið og eru þeir síðasta íslenska liðið til að vera slegið út úr keppnum UEFA.

Aberdeen 2:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma. Blikar skora ekki tvö mörk upp úr þessu og er því Evrópuævintýri þeirra lokið í ár. Þvílíkt ævintýri sem það var þó!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert