Sú bandaríska á leið til Íslendingaliðs

Delaney Baie Pridham heldur til Svíþjóðar.
Delaney Baie Pridham heldur til Svíþjóðar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Bandaríski framherjinn Delaney Baie Pridham, sem hefur leikið með kvennaliði ÍBV í knattspyrnu í sumar, er á leið til sænska úrvalsdeildarliðsins Kristianstad.

Þetta herma öruggar heimildir mbl.is. Pridham gengur alfarið til liðs við Kristianstad og hefur spilað sinn síðasta leik fyrir ÍBV.

Hún hefur leikið frábærlega fyrir Eyjakonur á tímabilinu og skorað sjö mörk í 10 deildarleikjum í úrvalsdeildinni, Pepsi Max-deildinni, auk þess sem hún skoraði eitt mark í tveimur bikarleikjum í Mjólkurbikarnum.

Er hún markahæsti leikmaður ÍBV á tímabilinu og því ljóst að um mikla blóðtöku er að ræða fyrir Eyjakonur, sem eru um miðja deild í sjötta sæti með 16 stig eftir 13 leiki.

Samkvæmt heimasíðu KSÍ er Pridham þegar búin að fá félagaskipti yfir til Svíþjóðar og má búast við því að Íslendingalið Kristianstad muni tilkynna um komu hennar á næstunni.

Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad og Sveindís Jane Jónsdóttir leikur með liðinu á láni frá Wolfsbrug og hin þaulreynda Sif Atladóttir er einnig á mála hjá liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert