„Ferðalagið hingað út gekk mjög vel en við flugum til Riga í Lettlandi og keyrðum svo bara yfir til Litháens,“ sagði knattspyrnukonan Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, í samtali við mbl.is í dag.
Breiðablik mætir KÍ frá Færeyjum í 1. umferð Meistaradeildar kvenna í fyrramálið en leikið er á Siaulai-vellinum í Siauliai í Litháen.
Það lið sem fer með sigur af hólmi mætir annaðhvort Gintra frá Litháen eða Flora Tallinn frá Eistlandi í Siauliai um sæti í 2. umferð keppninnar en fari svo að Blikar tapi gegn KÍ mæta þeir annaðhvort Gintra eða Flora Tallinn í leik um þriðja sæti riðilsins.
„Til stóð að við myndum æfa á keppnisvellinum í morgun en það er búið að rigna hressilega í Litháen í dag og því var ákveðið að spara völlinn fyrir leikina á morgun.
Við æfðum þess í stað á einhverju heldur ómerkilegu æfingasvæði eða túni, rétt hjá hótelinu, en það voru tvö mörk á staðnum og þetta reddaðist allavega.
Planið í dag er svo bara að kíkja aðeins á keppnisvöllinn í Siauliai og skoða aðstæður betur,“ bætti Ásta við.
KÍ hefur verið yfirburðalið í Færeyjum um árabil en liðið er að taka þátt í Meistaradeildinni í 19. skipti.
„Það er myndbandsfundur hjá okkur seinni partinn þar sem við munum fara aðeins yfir KÍ-liðið. Við vitum ekkert sérstaklega mikið um þetta færeyska lið en það er oft þannig í þessum Evróuleikjum.
Það ríkir oft ákveðin óvissa í kringum þessa mótherja í Evrópukeppnum en við eigum að vera sterkari á pappír og ef við mætum rétt stemmdar til leiks er ekkert því til fyrirstöðu að við náum í góð úrslit.“
Blikar töpuðu 0:1-gegn Val í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli á föstudaginn síðasta og eru nú sjö stigum á eftir Valskonum þegar fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu.
„Þessi leikur kemur á mjög góðum tíma enda vorum við allar með óbragð í munninum eftir tapið gegn Val á föstudaginn. Það er fínt að kúpla sig aðeins út frá tímabilinu heima fyrir og fara utan að spila.
Stemningin í hópnum er mjög góð, þetta lítur allt vel út og allir leikmenn liðsins eru klárir í slaginn,“ sagði Ásta Eir í samtali við mbl.is.
Leikur Breiðabliks og KÍ hefst klukkan 9 í fyrramálið og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.