Knattspyrnusamband Íslands sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að sambandið leggi áherslu á fagleg vinnubrögð þegar fram koma ábendingar eða kvartanir um meint ofbeldi innan hreyfingarinnar.
Þá ítrekar sambandið að það geri engar tilraunir til að þagga niður ofbeldismál eða hylma yfir með gerendum og vísar dylgjum um slíkt á bug.
Yfirlýsing Knattspyrnusambands Íslands:
Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) leggur áherslu á fagleg vinnubrögð þegar fram koma ábendingar eða kvartanir um meint ofbeldi sem með einum eða öðrum hætti má rekja til starfsemi innan hreyfingarinnar. Knattspyrnuhreyfingin á Íslandi er fjölmenn og eru skráðir iðkendur um 30 þúsund. KSÍ hefur ríka hagsmuni af því að sá mikli fjöldi sem starfar eða tekur þátt í starfsemi knattspyrnuhreyfingarinnar hér á landi upplifi öryggi og velferð í starfi sínu eða þátttöku og sambandið tekur skýra afstöðu gegn öllu ofbeldi.
Ef tilkynningar um mál sem tengjast einelti eða ofbeldi (m.a. kynferðisofbeldi) koma inn á borð sambandsins er tryggt að þau fari í viðeigandi ferli. Allir verkferlar slíkra mála hafa verið endurbættir og hafði fyrsta bylgja #Metoo m.a. áhrif þar á. Jafnréttisáætlun og jafnréttisstefna sambandsins hafa verið uppfærðar og er þar fjallað sérstaklega um kynferðislegt ofbeldi. Þá hefur KSÍ staðið fyrir vinnustofu um kynferðisofbeldi fyrir aðildarfélög sín og bætt fræðslu um kynferðisofbeldi inn í námsefni þjálfaramenntunar.
Eins og gefur að skilja eru mál sem varða kynferðisofbeldi vandmeðfarin og kallar meðferð þeirra á fagleg, vönduð og ekki síður yfirveguð vinnubrögð. Ef grunur er um lögbrot er ávallt hvatt til aðkomu lögregluyfirvalda og eins er leitað aðstoðar hjá Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála, sem er sérfræðingur ríkisins í meðferð slíkra mála.
KSÍ getur ekki tjáð sig um einstök mál sem upp kunna að koma á opinberum vettvangi vegna trúnaðar og persónuverndarmála. Rétt er þó að ítreka að KSÍ gerir engar tilraunir til að þagga niður ofbeldismál eða hylma yfir með gerendum. Dylgjum um slíkt er alfarið vísað á bug.
KSÍ er ávallt tilbúið til að gera betur og víkur sér ekki undan málefnalegri gagnrýni á starf sambandsins. Því er samtalið um ofbeldismál mikilvægt og ábendingum sem eru til þess fallnar að bæta hag iðkenda og áhugafólks um knattspyrnu vel tekið.
Kveðja / Regards,
KSÍ / FA of Iceland