Breiðablik vann afar sterkan og mikilvægan 2:0-sigur gegn KA í frestuðum leik í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í kvöld. Sigurinn þýðir að Breiðablik er nú í öðru sæti, aðeins einu stigi á eftir toppliði Vals.
Blikar settu KA-menn undir pressu snemma leiks og eftir um stundarfjórðungs leik fór hún sífellt að þyngjast. Gísli Eyjólfsson gerði sig líklegan með góðum spretti og skoti sem fór af varnarmanni og aftur fyrir og Árni Vilhjálmsson var hársbreidd frá því að skora af stuttu færi eftir frábæra sókn en Mikkel Qvist bjargaði glæsilega með rennitæklingu.
Tæpri mínútu síðar eftir dauðafæri Árna, á 19. mínútu, kom hins vegar fyrsta markið. Gísli tók þá hreinlega á rás af vinstri kantinum, lék inn í vítateig og hamraði boltann í þverslána og inn, glæsilegt mark og staðan orðin 1:0.
Blikar voru áfram við stjórn en KA-menn komust hins vegar nálægt því að jafna metin þegar Ásgeir Sigurgeirsson slapp í gegn á 36. mínútu en Anton Ari Einarsson varði vel í tvígang frá honum.
Þremur mínútum síðar vildu KA-menn svo fá vítaspyrnu þegar Alexander Helgi Sigurðarson steig á ökklann á Ásgeiri innan vítateigs en Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, var ekki á því.
Skömmu fyrir leikhlé komust Blikar svo nálægt því að tvöfalda forystu sína þegar Árni fór aftur illa að ráði sínu. Qvist gaf þá afleita sendingu út úr vörninni, Viktor Karl Einarsson náði boltanum og lék með hann í átt að vítateig, gaf til hliðar á Árna sem skaut beint á Steinþór Má Auðunsson í marki KA úr kjörstöðu.
Staðan því 1:0, Blikum í vil, í leikhléi.
Í síðari hálfleiknum voru Blikar áfram sterkari aðilinn og tæklaði Alexander Helgi boltann til að mynda í stöngina eftir góða pressu við vítateig KA-manna.
KA-menn voru þó skeinuhættir þá sjaldan sem þeir sóttu og komst Hallgrímur Mar Steingrímsson til dæmis í dauðafæri á 53. mínútu þegar skot hans fyrir miðjum vítateignum fór hárfínt fram hjá markinu eftir góðan undirbúning Marks Gundelachs.
Í kjölfarið fengu Blikar nokkur góð færi og tvöfölduðu svo forystu sína á 73. mínútu.
Gísli fór þá einu sinni sem áður vel með knöttinn og lék með hann inn í vítateig vinstra megin, gaf svo hnitmiðaða sendingu á Viktor Karl Einarsson sem skoraði með föstu innanfótarskoti utarlega úr teignum, 2:0.
Fleiri urðu mörkin ekki og mikilvægur sigur Blika því staðreynd. Er morgunljóst að liðið ætlar að leggja allt í sölurnar til þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn.
Blikar léku einkar vel allan leikinn og fór þar fremstur í flokki Gísli Eyjólfsson sem var ákaflega líflegur allan tímann. Hann átti fjölda góðra spretta, skoraði glæsilegt mark og lagði upp síðara markið.