Breiðablik á toppinn

Ásgeir Sigurgeirsson og Finnur Orri Margeirsson eigast við á Akureyri.
Ásgeir Sigurgeirsson og Finnur Orri Margeirsson eigast við á Akureyri. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Breiðablik er komið í efsta sæti í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsí Max deildinni, eftir góða ferð norður til Akureyrar. 

KA og Breiðablik mættust í sannkölluðum risaleik í Pepsi Max deild karla á Greifavellinum í kvöld. Fyrir leik voru Breiðablik í þriðja sæti deildarinnar og KA í því fjórða. Bæði lið áttu leik til góða á toppliðin tvö, Val og Víking. Aðstæður á Akureyri voru frábærar, u.þ.b. 25 stiga hiti og sól. 

Fyrri hálfleikurinn var mikil skemmtun þrátt fyrir færaleysi, eins skrýtið og það er að segja það. Gæðin skinu í gegn hjá leikmönnum beggja liða og sýndu þau bæði frábæra takta á köflum. Ásgeir Sigurgeirsson fékk líklega besta færi heimamanna þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson fann hann í teignum eftir að hafa spólað sig upp allan vinstri vænginn. Ásgeir náði þó ekki alveg nægilega góðu skoti og átti Anton Ari Einarsson ekki í vandræðum með að verja en Damir Muminovic gerði vel í að trufla Ásgeir í færinu. Árni Vilhjálmsson fékk besta færi gestanna eftir flottan undirbúning Jasons Daða Svanþórssonar á hægri kantinum. Árni fékk boltann frá Jasoni við vítateigshornið vinstra megin, fór á hægri fótinn og reyndi að koma sér í skotfæri en þegar hann lét skotið ríða af var Ívar Örn Árnason mættur til að henda sér fyrir. Staðan í hálfleik því 0:0.

Seinni hálfleikur var ekki orðinn mínútu gamall þegar Ívar Örn Árnason átti vonda sendingu út úr vörn KA-manna beint á Gísla Eyjólfsson. Gísli setti boltann strax á Viktor Karl Einarsson sem fann Höskuld Gunnlaugsson í utan á hlaupinu. Fyrirgjöf Höskuldar fór af varnarmanni og endaði á kollinum á Kristni Steindórssyni sem stýrði boltanum fagmannlega í fjærhornið. Einungis níu mínútum síðar fékk Kristinn svo boltann rétt fyrir utan vítateig KA-manna. Kristinn beið í smá stund með boltann áður en hann vippaði honum frábærlega inn á Árna Vilhjálmsson sem gerði engin mistök í færinu og tvöfaldaði forystu sinna manna. Eftir markið tóku Blikar öll völd á vellinum alveg þar til að u.þ.b. 20 mínútur voru eftir að leiknum en þá sóttu KA-menn aðeins í sig veðrið á ný. Þeir reyndu hvað þeir gátu til að skora en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 0:2.

Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik voru Blikar töluvert betri í þeim seinni. Kom þá ákveðinn gæðamunur í ljós á liðunum en KA-menn áttu lítið roð í miðjumenn og framherja Breiðabliks. Þeir Viktor Karl Einarsson, Gísli Eyjólfsson og Kristinn Steindórsson léku á köflum á als oddi og var hrein unun að horfa þegar Blikarnir fóru af stað í skyndisóknir. Einnig er spurning hvað þjálfararnir sögðu við sína menn í hálfleik þar sem Breiðablik kom af öllu afli inn í seinni hálfleikinn á meðan KA-menn voru hreinlega ekki mættir þegar fyrra mark Breiðabliks kom. 

Með sigrinum setjast Blikar á topp deildarinnar og er það því í þeirra höndum að klára þetta. Spurning hvort KA-menn hafi endanlega stimplað sig út úr baráttunni með þessu tapi en það er aldrei að vita. Eitt er víst að það er rosaleg titilbarátta í vændum.

KA 0:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Fimm mínútur í uppbótartíma! Það er nóg eftir af þessu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka