„Dýrmætast að ráða sínum eigin örlögum“

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, á hliðarlínunni í kvöld.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks var að vonum sáttur eftir sigur gegn KA á Greifavellinum í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í kvöld en með sigrinum fóru Blikar á topp deildarinnar.

„Mér líður bara mjög vel. Ég er sáttur við frammistöðuna í 70 mínútur. Mér fannst fyrstu 15-20 mínúturnar vera heldur þreyttar og þungar en eftir það fannst mér við mjög góðir.“

„Ég er ánægður með vinnuframlagið og varnarleikinn frá fremsta manni til aftasta. Svo auðvitað skoruðum við tvö góð mörk og maður getur alls ekki gengið að því vísu að koma hingað á þennan erfiða heimavöll, þetta virki sem KA er búið að búa sér til hérna, og vinna. Það er bara alls ekki sjálfsagt og ég er bara mjög stoltur af mínum mönnum.“

Eins og Óskar kom inn á var svolítið eins og leikmenn Breiðabliks væru hreinlega ekki alveg mættir til leiks í upphafi. „Stundum er það bara þannig. Stundum byrja menn bara á því að fara öfugt í skónna eða eitthvað. Ég veit ekki hvað þetta getur verið. Þetta gerist líka á móti Víking en þar byrjum við aðeins þungir og ekki í takti. En það er ágætis gangur í okkur, það er sjálfstraust í liðinu og menn hjálpa hvor öðrum, svo þeir ná yfirleitt vopnum sínum. Í þessum leik er ég bara glaður við komumst í gegnum þann kafla sem var ekki góður hjá okkur án þess að fá á okkur mark.“

Síðustu tveir leikir Breiðabliks voru báðir gegn KA sem verður að teljast óvenjulegt í deildarkeppni. Breiðablik unnu báða leikina 2:0. „Við í rauninni nálguðumst þetta þannig að við keyrum á okkar áherslur en auðvitað þurfum við að taka tillit til styrkleika KA manna því þeir eru margir. Það voru ákveðnir hlutir sem við lærðum af fyrri leiknum og tókum með okkur inn í þennan, sumt af því gekk og sumt ekki. Þetta er aðeins öðruvísi að mæta sama liðinu tvisvar í röð, þetta er áhugavert, sértakt og skrýtið en ég ætla ekki að kvarta yfir því akkúrat núna.“

Eins og áður sagði eru Breiðablik komnir á toppinn eftir sigurinn í kvöld. „Ég er auðvitað bara ánægður með að hafa unnið þennan leik og sennilega er dýrmætast að ráða sínum eigin örlögum. Nú er það bara mjög erfiður leikur á móti Fylkismönnum á sunnudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert