„Við veljum þann hóp sem okkur stendur til boða hverju sinni,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum í dag.
Arnar Þór tilkynnti í dag 25 manna leikmannahóp sinn sem mætir Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi í undankeppni HM á Laugardalsvelli í byrjun september.
Mikið hefur gustað í kringum íslenska karlalandsliðið undanfarnar vikur en Gylfi Þór Sigurðsson var handtekinn á Bretlandi í júlí grunaður um brot gegn ólögráða einstaklingi.
Þá hafa leikmenn liðsins verið bornir þungum sökum á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur fyrir ofbeldi í garð kvenna.
„Oft viljum við fá aðra leikmenn en við viljum velja en ef það kæmi eitthvað inn á okkar borð, að okkur yrði bannað að velja ákveðna leikmenn, þá þyrftum við að fylgja fyrirmælum okkar yfirmanna,“ bætti Arnar við þegar hann var spurður út í orðrómana í kringum landsliðið og hvort það hefði komið til greina að velja ekki ákveðna leikmenn vegna þeirra.
„Við erum bara þjálfarar,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari liðsins, á fundinum.
„Við erum bara hér til að velja landsliðshóp og setjum alla okkar orku í það. Allt utan þess munum við ekki ræða,“ bætti Eiður Smári við.