Það hefur gustað mikið í kringum íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu undanfarna mánuði en Arnar Þór Viðarsson tók við þjálfun liðsins í desember á síðasta ári af Svíanum Erik Hamrén.
Gylfi Þór Sigurðsson, einn besti leikmaður liðsins undanfarin ár, var handtekinn á Englandi í júlí grunaður um brot gegn ólögráða einstaklingi.
Þá var Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari liðsins, sendur í leyfi frá störfum eftir myndband sem birtist af honum í annarlegu ástandi í miðbæ Reykjavíkur.
Á samfélagsmiðlum hafa svo verið birtar ýmsar sögur um leikmenn liðsins og ofbeldi þeirra í garð kvenna.
„Ég sé alls ekki eftir því að hafa tekið þetta starf að mér, þrátt fyrir allar þær áskoranir og uppákomur sem við höfum lent í,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska liðsins, á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum í gær þar sem hann opinberaði nýjasta landsliðshóp sinn.
„Þetta hefur verið gríðarlega krefjandi en á sama tíma ógeðslega gaman líka og við hlökkum mikið til að takast á við fyrstu heimaleikina í september,“ sagði Arnar.
Landsliðið hefur legið undir gagnrýni og stuðningurinn við liðið er ekki sá sami og hann var þegar liðið tók þátt í tveimur stórmótum; EM 2016 í Frakklandi og HM 2018 í Rússlandi.
„Í rauninni getum við bara gert eitt til að fá fólkið í landinu á bak við okkur og það er að sýna það og sanna að þetta er okkar ástríða og líf ef svo má segja,“ sagði Arnar.
„Það er það sama hjá leikmönnunum. Þetta snýst um að berjast fyrir Ísland og skila stigum í hús. Þegar það gerist þá eru flestir sem flykkja sér á bakvið liðið og styðja það,“ bætti Arnar við.