Breiðablik skoraði sjö í Árbænum

Breiðablik fagnar einu af mörkum sínum í Árbænum í kvöld.
Breiðablik fagnar einu af mörkum sínum í Árbænum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Breiðablik endurheimti toppsæti úrvalsdeildar karla í knattspyrnu með afgerandi 7:0-sigri á Fylki í Árbænum í 19. umferð Pepsi Max-deildarinnar í kvöld.

Heimamenn í Fylki voru ekki búnir að vinna deildarleik síðan í júlí og voru aldrei líklegir til að breyta því í kvöld. Á meðan hafa Blikar leikið á als oddi undanfarnar vikur og vildu endurheimta toppsætið eftir að Víkingur úr Reykjavík vann FH í Kaplakrika fyrr í dag.

Staðan varð 1:0 strax á 12. mínútu er Kristinn Steindórsson skoraði auðvelt mark eftir afleit mistök. Jason Daði Svanþórsson átti þá fyrirgjöf frá hægri sem Ólafur Kristófer Helgason í marki Fylkis náði ekki að handsama, missti boltann og Kristinn þakkaði fyrir sig og skoraði. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Ólafur Kristófer átti eftir að koma við sögu í kvöld en hann er að leysa Aron Snæ Friðriksson af hólmi, aðalmarkvörð Fylkis sem er meiddur.

Blikar komust í 2:0 á 21. mínútu þegar Höskuldur Gunnlaugsson skoraði í nærhornið með ágætu skoti, eftir sendingu Viktors Karls Einarssonar. Skotið var þó ekki mjög fast og hefði Ólafur Kristófer mögulega átt að verja. Sömu sögu er að segja um þriðja markið sem Viktor Karl skoraði sjálfur á 36. mínútu. Skot í nærhornið sem Ólafur náði ekki til, staðan orðin 3:0.

Markvörðurinn átti svo sín verstu mistök rétt fyrir hálfleik, á 42. mínútu, þegar hann sló boltann í eigið net eftir meinlausa fyrirgjöf Viktors. 4:0 í hálfleik. Fylkismenn færðu sig eitthvað aðeins upp á skaftið eftir hlé en það endist ekki út leikinn. Blikar fengu fimmta markið á 71. mínútu og þá var svo sannarlega ekki við markvörðinn að sakast. Boltinn féll fyrir Höskuld fyrir utan teig og fyrirliðinn skoraði með laglegu, viðstöðulausu skoti. Davíð Örn Atlason skoraði svo sjötta markið á 75. mínútu með laglegu skoti eftir stungusendingu Árna Vilhjálmssonar. Árni rak svo smiðshöggið á stórsigurinn með glæsimarki á 86. mínútu, þversláin og inn.

Árbæingar eru aftur á móti komnir í fallsæti eftir að HK vann 1:0-sigur á Keflavík í Kórnum í kvöld.

Breiðablik er ekki Barcelona

Ragnar Bragi Sveinsson, fyrirliði Fylkis, var skiljanlega svekktur er mbl.is náði tali af honum í leikslok. Blaðamaður innti hann eftir því hvers vegna Blikar hefðu verið svona mikið betri í kvöld og var hann þá fljótur að svara. „And­skot­inn hafi það, þetta er ís­lenski bolt­inn. Það er ekki eins og við höf­um verið að spila við Barcelona, við höf­um spilað á móti þessu liði margoft. Þetta var hrika­lega lé­legt hjá okk­ur, að öllu leyti."

Það er auðvitað hárrétt að Breiðablik getur ekki alveg mátað sig við spænska stórveldið í Barcelona en ef eitthvert lið á Íslandsmótinu gæti komist nálægt því að spila þann leiftrandi sóknarfótbolta sem þar er í hávegum hafður, þá væri það sennilega Kópavogsliðið.

Blikar eru frábærir á góðum degi og það er hreinlega stórkostlega skemmtilegt að horfa á þá spila sinn fótbolta. Það verður gríðarlega áhugavert að sjá einvígi Breiðabliks og Íslandsmeistara Vals í næsta leik. Valsarar eru með bakið upp við vegginn en það skyldi þó enginn afskrifa liðið á Hlíðarenda.

Kristinn Steindórsson, nr. 20, skorar fyrsta mark Blika í Árbænum …
Kristinn Steindórsson, nr. 20, skorar fyrsta mark Blika í Árbænum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason
Fylkir 0:7 Breiðablik opna loka
90. mín. Leik lokið Blikar endurheimta toppsætið með sjö marka stórsigri!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka