Stjórnum okkar eigin örlögum

Höskuldur Gunnlaugsson, með fyrirliðabandið, fagnar með liðsfélögum sínum í Árbænum …
Höskuldur Gunnlaugsson, með fyrirliðabandið, fagnar með liðsfélögum sínum í Árbænum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Við stöndum okkur vel í báðum vítateigum, klárum færin og þetta er bara frábær frammistaða,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, eftir 7:0-stórsigur á Fylki í úrvalsdeildinni í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld.

Blikar hafa nú unnið sex leiki í röð og sitja á toppi deildarinnar með 41 stig, tveimur stigum fyrir ofan Víkinga úr Reykjavík þegar þrjár umferðir eru eftir. „Við vorum ekki værukærir og sýndum ekkert vanmat, við viljum alltaf vera á pari þegar það kemur að okkar eigin frammistöðu, eða betri en það. Fylkismenn eru að berjast fyrir lífi sínu og við vissum að það yrði erfitt að eiga við þá,“ sagði Höskuldur í samtali við mbl.is strax að leik loknum.

Blikar hófu tímabilið á tapi á heimavelli gegn KR og urðu svo að láta jafntefli duga gegn nýliðum Leiknis í annarri umferðinni. Höskuldur segir aðalatriðið í Kópavoginum hafa verið að verða betri með hverjum leiknum.

„Það þýðir ekkert að sveiflast of mikið með þessu. Við erum rassskelltir í fyrsta leik gegn KR, gerum svo jafntefli gegn Leikni í Breiðholtinu en það hefur reyndar komið í ljós að þeir eru frábærir á heimavelli. Það var kannski bara gott stig en aðalatriðið hefur verið að halda haus, æfa vel og verða betri með hverjum leiknum.“

Næst mæta Blikar Íslandsmeisturum Vals á Kópavogsvelli en meistararnir eru í 3. sæti með 36 stig. „Nú er kærkomið að hvíla lappirnar aðeins en svo mætum við með rétt hugarfar. Það væri fáránlegt að segja annað en að markmiðið er að halda þessu fyrsta sæti, stjórna okkar eigin örlögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka