Mikið breytt íslenskt karlalandslið í fótbolta mátti þola 0:2-tap fyrir Rúmeníu í fjórða leik sínum í undankeppni HM sem fram fer í Katar á næsta ári. Möguleikarnir á að fara á heimsmeistaramótið eru svo gott sem engir eftir leikinn, en Ísland er með þrjú stig í fimmta sæti af sex liðum í J-riðlinum.
Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að bæði lið hafi fengið sín færi. Íslenska liðið fékk betri færi en það besta fékk Viðar Örn Kjartansson á 15. mínútu þegar hann fékk frían skalla nálægt markteignum en hann skallaði nokkuð beint á Florin Nita í marki Rúmeníu.
Íslenska liðið leit nokkuð vel út í sóknarleik sínum og þá sérstaklega upp hægri kantinn þar sem Jóhann Berg Guðmundsson og Birkir Már Sævarsson voru líflegir.
Hinum megin var íslenska vörnin nokkuð opin og tókst Rúmenum nokkrum sinnum að komast í góðar stöður. Deian Sorescu átti hættulegt skot rétt framhjá snemma leiks og þá áttu Rúmenar nokkur langskot sem reyndu ekki mikið á Rúnar Alex Rúnarsson í marki Íslands.
Það tók Rúmeníu aðeins tvær mínútur að skora í seinni hálfleik en það gerði Dennis Man þegar hann fékk boltann á fjærstönginni eftir sendingu frá vinstri og átti ekki í erfiðleikum með að skora af stuttu færi.
Íslenska liðinu gekk illa að skapa sér almennilegt færi í seinni hálfleik og á 83. mínútu innsiglaði Nicolae Stanciu 2:0-sigur rúmenska liðsins. Hann slapp þá einn í gegn eftir hornspyrnu Íslands og skoraði af öryggi.
Ísak Bergmann Jóhannesson og Jón Dagur Þorsteinsson komu með nokkurn kraft af bekknum, en þó gekk illa að skapa góð færi og rúmenskur sigur því staðreynd. Rúmenska liðið er ekki sérstaklega gott, en íslenska liðið var það ekki heldur í kvöld.