U21 árs landslið karla í knattspyrnu fór vel af stað í dag í nýrri undankeppni EM og náði í þrjú stig í fyrsta leik sínum í keppninni.
Ísland heimsótti Hvíta-Rússland en leikið var í borginni Brest nærri landamærunum við Pólland. Ísland hafði betur 2:1 og er því komið með 3 stig en liðið komst í lokakeppnina í síðustu keppni.
Hákon Arnar Haraldsson, 18 ára leikmaður Köbenhavn í Danmörku, skoraði bæði mörkin en hann kom inn á sem varamaður strax á 5. mínútu leiksins þegar fyrirliðinn Brynjólfur Willumsson meiddist og þurfti að fara af velli.
Mörkin skoraði Hákon á 20. og 54. mínútu aður en Aleksandr Shestyuk minnkaði muninn á 70. mínútu.