Ef ég get ekki unnið starf mitt þarf að finna einhvern annan

Arnar Þór Viðarsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag.
Arnar Þór Viðarsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari segir það ljóst að þörf sé á skýrum verklagsramma þegar kemur að því hvaða leikmenn hann megi og megi ekki velja í landsliðshóp sinn.

Síðastliðinn sunnudag ákvað stjórn KSÍ að taka skyldi Kolbein Sigþórsson og Rúnar Má Sigurjónsson úr landsliðshópnum. Kolbeinn var tekinn úr hópnum vegna ofbeldismála honum tengdum en Rúnar Már var áður búinn að draga sig sjálfur úr honum.

433.is greindi frá því að Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kynjafræðingur og kennari í Borgarholtsskóla, og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, hafi fengið að sjá landsliðshópinn á fundi með stjórn KSÍ og hafi þar lagt til að þessir tveir yrðu teknir úr hópnum.

Á blaðamannafundi í höfuðustöðvum KSÍ í dag var Arnar Þór spurður að því hvernig hann myndi bregðast við ef svo færi að tekið væri fram fyrir hendur hans í vali á leikmannahóp á ný og hafði hann þetta að segja:

„Ég ætla að svara þessari spurningu alveg óháð því sem gerðist á sunnudaginn. Ég held að það sé alveg ljóst og ég hef sagt það áður að ég get ekki talað um ákvörðun stjórnar því ég var ekki á þessum fundi. Það eina sem ég get sagt, og það hefur ekki með nein mál sem hafa verið í umræðunni að gera, þá er ég bara að tala um mig og okkur þjálfarana.

Það er að það verður að vera til, ekki bara fyrir fótboltann heldur fyrir íþróttir í heild á Íslandi og allt samfélagið, einhver rammi um það hvað þarf að gerast áður en það er ekki í boði fyrir þjálfara að velja leikmenn. Sá rammi þarf að vera skýr, hvort sem það er kæra til lögreglu eða hvað, ég hef ekkert vit á því. Ég er bara að segja að þessi rammi þarf að vera klár.“

Ástæðuna fyrir því sagði Arnar Þór vera þá að að öðrum kosti gætu hann og þjálfarateymi hans ekki unnið vinnuna sína með almennilegum hætti.

„Það er vegna þess að það er ómögulegt fyrir okkur sem þjálfara að vinna okkar starf ef við þurfum að hringja inn nöfn til stjórnar eða í hvern sem er og fá leyfi til að velja fólk. Þá get ég ekki unnið starfið mitt. Ef ég get ekki unnið starfið mitt eins og ég vil vinna það þá þarf að finna einhvern annan þjálfara.

Það þarf að gera þetta mjög fljótt. Þessi rammi þarf að vera klár eins fljótt og hægt er. Við þurfum að geta unnið eftir einhverjum ramma. Ég veit ekki hvort það sé fyrir KSÍ að búa til þennan ramma. Þetta er kannski fyrir ÍSÍ eða jafnvel stjórnmálamenn í landinu því við vitum öll að umræðan sem hefur verið undanfarnar vikur er bara skaðleg fyrir íþróttir, fyrir fótboltann og fyrir samfélagið,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert