Þorsteinn um Amöndu: „Hún þurfti að taka ákvörðun“

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hin unga og bráðefnilega Amanda Andradóttir er í A-landsliðshópi kvenna sem mætir Hollandi í undankeppni HM 2023 síðar í mánuðinum. Á dögunum var hún valin í U19-ára landslið Noregs og þurfti því að velja hvoru boðinu hún hygðist þekkjast.

Við vorum búin að velja hana í hópinn fyrir þetta verkefni. Blaðamannafundurinn átti að vera á föstudaginn en ég var sjálfur með Covid og losnaði ekki úr einangrun fyrr en á föstudagskvöldið.

Þegar það kom í ljós að hún var líka valin í U19-ára hóp Noregs þá þurfti hún bara að taka ákvörðun um hvað hún vildi gera,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari á Teams-fundi með blaðamönnum í dag.

Amanda á norska móður og er því gjaldgeng í bæði landslið. Faðir hennar er Andri Sigþórsson fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður. Spurður um ferlið þegar kom að því að velja Amöndu sagði Þorsteinn:

„Ég átti fund með pabba hennar og ætlaði hitta hana og fara á leik með henni í Noregi en það er eitt í gangi í heiminum sem kom í veg fyrir það. Ég hitti hann á fundi hér heima og setti spilin á borðið, fór yfir það með honum hvernig við lögðum upp með að gera þetta. Ég ræddi þetta svo við hana sjálfur í síma og hún tekur svo þessa ákvörðun.“

Þorsteinn sagðist hafa fylgst afar vel með Amöndu undanfarið, en hún leikur með norska úrvalsdeildarfélaginu Vålerenga. Kom hún frá Nordsjælland í Danmörku fyrir þetta tímabil, þar sem hún lék í úrvalsdeildinni þar í landi.

„Ég held að ég sé búinn að sjá alla leikina nema einn á þessu tímabili, síðasta bikarleik hennar þar sem hún kom inn á í hálfleik. Amanda getur orðið virkilega góð, er með flottar spyrnur og góðan leikskilning. Hún er að þróast og þroskast vel.

Ég horfði á hana í Danmörku og það er mikill munur á henni þar og núna í Noregi. Hún er í góðri framför. Vonandi heldur hún áfram að bæta sig svo hún geti nýst okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert