Kvennalið Breiðabliks í knattspyrnu er í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu næstkomandi mánudag. Í þeim styrkleikaflokki eru gífurlega sterk félög sem Breiðablik sleppur þar með við að mæta.
Í öðrum styrkleikaflokki eru nefnilega þrjú önnur lið sem eiga það öll sameiginlega að hafa unnið Meistaradeildina, samtals tíu titla.
Franska stórveldið Lyon, sem hefur unnið metfjölda Meistaradeildartitla, sjö talsins, er þeirra á meðal ásamt Wolfsburg, sem hefur unnið Meistaradeildina í tvígang.
Þá er ógetið Arsenal, sem vann Meistaradeildina árið 2006/2007. Þess má geta að þá slógu Skytturnar lið Breiðabliks úr keppni í átta liða úrslitum.
Eins og áður hefur verið greint frá hefur fyrirkomulagi Meistaradeildarinnar verið breytt fyrir þetta tímabil þar sem riðlakeppni kemur nú til skjalanna.
Áður hafði verið stuðst við útsláttarkeppni og hefur Breiðablik lengst komist í átta liða úrslit undir því fyrirkomulagi.
16 sterkustu lið Evrópu munu etja kappi í fjórum fjögurra liða riðlum og komust einungis liðin fjögur í efsta beint í riðlakeppnina. Styrkleikaflokkarnir fyrir dráttinn á mánudaginn eru eftirfarandi:
Styrkleikaflokkur 1:
Barcelona
París Saint-Germain
Bayern München
Chelsea
Styrkleikaflokkur 2:
Lyon
Wolfsburg
Arsenal
Breiðablik
Styrkleikaflokkur 3:
Häcken
Juventus
Hoffenheim
Real Madríd
Styrkleikaflokkur 4:
Zhytlobud Kharkiv
Servette
Köge
SL Benfica
Þessi röðun gefur Breiðabliki möguleika á að mæta þremur Íslendingaliðum því Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir leika með Bayern München sem er í fyrsta flokki, Diljá Ýr Zomers leikur með Häcken sem er í þriðja flokki og Cloé Eyja Lacasse leikur með SL Benfica sem er í fjórða flokki.