Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, var að vonum í skýjunum eftir að liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, fyrst íslenskra liða, með öruggum 3:0 sigri gegn króatíska liðinu Osijek í gær.
„Hún er bara ótrúleg. Maður er rétt að ná sér niður núna. Þetta var geggjuð stemning og þetta er magnað afrek. Við erum þvílíkt stoltar,“ sagði Ásta Eir í samtali við mbl.is í gærkvöldi, spurð um hvernig líðan hennar væri eftir sigurinn frábæra sem tryggði sætið í riðlakeppninni.
Með því að vinna 3:0 í gær vann Breiðablik einvígið samanlagt 4:1 eftir að liðin skildu jöfn, 1:1, í síðustu viku.
„Þetta var frábær leikur hjá okkur. Þær lágu á okkur svona fyrstu þrjár mínúturnar fannst mér en svo keyrðum við bara á þær, sem skilaði okkur tveimur mörkum á fyrstu tíu mínútunum og var ótrúlega gott að fara með inn í hálfleik. Allt sem við lögðum upp með gekk frekar vel.
Það komu kaflar þar sem þær héldu boltanum aðeins en voru samt aldrei að skapa sér neitt. Það var planið að halda markinu hreinu, það var númer eitt, tvö og þrjú því við vissum alltaf að við myndum skora. Það var geggjað að klára þetta svo í byrjun seinni hálfleiks og drepa leikinn,“ bætti hún við.
Breiðablik skoraði á 9. og 10. mínútu í fyrri hálfleik og þriðja markið kom eftir aðeins þriggja mínútna leik í þeim síðari. Eftir þriðja markið reyndist eftirleikurinn afar auðveldur og allur vindur úr gestunum.
„Já við töluðum einmitt um það í hálfleik að setja þetta þriðja mark og ganga alveg frá þeim. Það var ákveðinn léttir að komast í 3:0 af því að þær voru ekki að skapa neitt og mér fannst við halda þeim vel í skefjum. Ég er mjög ánægð með frammistöðuna,“ bætti Ásta Eir við.
Breiðablik er í öðrum styrkleikaflokki fyrir dráttinn í riðlakeppnina sem fer fram næstkomandi mánudag, 13. september. Blaðamanni lék forvitni á að vita hvort Ásta Eir ætti sér einhvern eða einhverja óskamótherja.
„Við vorum aðeins að ræða þetta, ég og Kristín [Dís Árnadóttir] systir, og við erum svolítið spenntar fyrir því að fá Chelsea, ensku meistarana. Ég held að það væri alveg ævintýri. Svo er spurning hvað við fáum, við erum náttúrlega í ágætis stöðu með því að vera í öðrum styrkleikaflokki.
Það væri gaman að fá einhver lið frá Norðurlöndunum líka, Häcken [frá Svíþjóð] eða danska liðið Köge, til þess að sjá hvar við stöndum gegn þeim. Við eigum alveg ágætis möguleika gegn þeim,“ sagði hún og bætti við að Blikar þyrftu að gæta þess að láta ekki staðar numið þrátt fyrir að hafa þegar náð frábærum árangri.
„Við þurfum bara að mæta með kassann út í þessa leiki, mæta sem sigurvegarar. Við megum ekki vera saddar núna, við erum komnar þetta langt og viljum auðvitað halda áfram. Þetta verður spennandi að sjá á mánudaginn þegar það verður dregið,“ sagði Ásta Eir að lokum í samtali við mbl.is.