Breiðablik endurheimti toppsætið

Haukur Páll Sigurðsson og Árni Vilhjálmsson eigast við í fyrri …
Haukur Páll Sigurðsson og Árni Vilhjálmsson eigast við í fyrri leik liðanna í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik endurheimti toppsætið í Pepsí Max deild karla í knattspyrnu í kvöld með 3:0 sigri í stórleiknum gegn Val í 20. umferð á Kópavogsvelli. 

Víkingur komst upp fyrir Breiðablik í dag með sigri gegn HK. Víkingur er með 42 stig en Breiðablik 44 stig.

Valsmenn verða fljótlega fráfarandi meistarar en þeir geta ekki náð Breiðabliki með sín 36 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Valsmenn eru raunar í hörkubaráttu um að ná Evrópusæti. Eru tveimur stigum á eftir KR og með jafn mörg og KA.

Blikarnir voru mun áræðnari í leiknum en mörkin létu þó á sér standa í fyrri hálfleik. Valsmenn voru nokkuð sprækir senmma í síðari hálfleik en Breiðablik náði forystunni á 61. mínútu og það slökkti eiginlega aftur á Valsliðinu.

Gísli Eyjólfsson náði í vítaspyrnu og Árni Vilhjálmsson skoraði úr henni á 61. mínútu. Kristinn Steindórsson bætti við öðru marki af stuttu færi á 72. mínútu áður en Árni Vilhjálmsson innsiglaði sigurinn úr skyndisókn á 81. mínútu.

Spilið gekk illa hjá Val

Kristinn Steindórsson kom boltanum í netið hjá Val eftir laglega sókn á 43. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Kristinn var að einhverju leyti fyrir innan en tæpt var það. Á hinn bóginn voru Valsmenn fúlir yfir vítaspyrnudóminum á 61. mínútu. Johannes Vall og Guðmundur Andri bauð reyndar hættunni heim. Gísli nýtti sér það og uppskar vítaspyrnu. Erfitt var að skera úr um úr blaðamannastúkunni hvort dómurinn hafi verið réttur. 

Markið breytti miklu. Valsmenn reyndu að fara framar og þurftu að taka áhættu. Þeir þurftu að skora alla vega tvö mörk því jafntefli hefði ekki gert neitt fyrir liðið í toppbaráttunni úr því sem komið er. Blikar nýttu sér það vel og bættu við tveimur mörkum. Ekki er heppilegt að lenda undir gegn liði Breiðabliks þar sem liðið er banvænt í skyndisóknum. 

Breiðablik var betra liðið í leiknum og gekk mun betur að halda boltanum. Það gekk illa hjá Valsmönnum og þeir áttu ekki góðan dag á heildina litið. Engu að síður var staðan 0:0 eftir klukkutíma og þá var spennan til staðar. Valsmenn voru sprækastir snemma í síðari hálfleik þegar þeir náðu ágætum kafla. Patrick Pedersen var ekki í marktækifærum í þessum leik en hann bjó til gott færi þegar hann hirti boltann af Viktor Karli Einarssyni og bjó til hættulega skyndisókn. Markvörðurinn Anton Ari Einarsson bjargaði þá málunum fyrir Blikana. 

Eftir að Blikarnir komust yfir virtist ekki vera mikil spurning um hvort liðinu tækist að landa sigrinum. Valsmenn hafa nú tapað fjórum af síðustu sex leikjum og þar hefur sjálfstraustið farið dvínandi. Á miðju sumri virtust Valsmenn líklegir til að verja titilinn en óvænt tap á Skaganum virðist hafa hrundið af stað atburðarrás sem ekki var fyrirséð. Liðið er nú í 5. sæti með jafn mörg stig og KA. Valur gæt ef til vill þurft að vinna bikarkeppnina til að ná Evrópusæti. 

Mikil vinnusemi í bland við hæfileika

Framundan er kapphlaup hjá Breiðabliki og Víkingi um Íslandsmeistaratitilinn. Liðin eiga þó bæði eftir öfluga andstæðinga. Breiðablik mætir reyndu liði FH og Víkingur á eftir að spila á móti reyndu liði KR. Lokaspretturinn verður mjög fróðlegur og HK verður tæplega auðveldur andstæðingur fyrir Breiðablik í lokaumferðinni. Þar spilar inn í nágrannarígur sem oft hleypir upp leikjum. 

Blikar eru í toppsætinu og þeir geta sjálfir unnið Íslandsmeistaratitilinn án þess að þurfa að velta fyrir sér úrslitum Víkings. Verði það niðurstaðan eru þeir vel að því komnir. Liðið leikur ekki einungis fínan fótbolta heldur er vinnusemin mikil sem sést á þeim hlaupum og færslum sem leikmennirnir leggja á sig í leikjunum. Óskar Hrafn Þorvaldsson virðist hafa nýtt veturinn geysilega vel til að undirbúa sína menn og þeir hafa sprungið út, sérstaklega seinni hluta sumars. 

Breiðablik 3:0 Valur opna loka
90. mín. Leik lokið Breiðablik vann 3:0 og er á toppnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert