„Okkur finnst við geta hlaupið endalaust“

Kristinn Steindórsson skoraði í kvöld.
Kristinn Steindórsson skoraði í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Bara mjög mikilvægur eins og allir okkar sigrar upp á síðkastið,“ svaraði Kristinn Steindórsson leikmaður Breiðabliks þegar mbl.is spurði hann hversu mikilvægur sigurinn gegn Val á Kópavogsvellinum í kvöld hafi verið. 

Breiðablik vann 3:0 og er í toppsæti Pepsí Max deildarinnar í knattspyrnu þegar tvær umferðir eru eftir. Vonir Valsmanna um að verja Íslandsmeistaratitilinn eru endanlega úr sögunni. 

„Víkingur vann í dag og við vissum því að við þyrftum að vinna í kvöld. Reyndar höfum við litið þannig á í þessar tvær vikur sem við höfum beðið eftir þessum leik að þennan þyrftum við að vinna. Við náðum því og erum sáttir,“ sagði Kristinn einnig. 

Eftir markalausan fyrri hálfleik fannst Kristni að Blikar þyrftu að vera þolinmóðir og þá kæmi að því að þeir skoruðu. „Mér fannst við vera með þá í fyrri hálfleik. Við töldum að ef við yrðum þolinmóðir og spiluðum okkar leik þá myndum við fá marktækifæri. Við fengum víti og skoruðum 1:0. Þá þurftu þeir að opna sig meira og við gengum á lagið. Við spiluðum okkar bolta og vorum vissir um að mörkin myndu koma ef við gerðum það.“

Eftir gott gengi í deildinni og í Evrópuleikjum þá er sjálfstraustið væntanlega í botni hjá leikmönnum Breiðabliks? 

„Að sjálfsögðu. Ég held að það sjáist á okkar spilamennsku að okkur líður vel og að okkur finnst gaman að spila fótbolta. Menn eru svo sannarlega að leggja sig fram hver fyrir aðra og þá er erfitt að stoppa okkur,“ sagði Kristinn. Í síðustu tveimur leikjunum mætir liðið FH á útivelli og HK á heimavelli. Það er óneitanlega athyglisvert að Kópavogsliðin muni eigast við í lokaumferðinni. 

„Já já algjörlega. En við erum ekki farnir að horfa á það ennþá því við eigum leik á sunnudaginn. Við þurfum að klára hann almennilega áður en við förum að spá í leiknum á móti HK og hvernig það allt verður.“

Blikarnir hafa leikið mjög vel seinni hluta sumars og margir Evrópuleikir á skömmum tíma höfðu ekki neikvæð áhrif á gengi liðsins í deildinni sem er nokkuð athyglisvert. 

„Við vorum heppnir með meiðsli en erum einnig það vel þjálfaðir að við eigum að þrífast á því að vera í svona leikjaálagi. Það er miklu skemmtilegra heldur en að spila einn leik á viku og æfa þess á milli. Ég held að við höfum notið þess að fá að fara saman í ferðalög og spila fullt af leikjum. Við erum í frábæru formi og okkur finnst við geta hlaupið endalaust. Við njótum þess bara að spila hvort sem það eru þrír dagar á milli leikja eða vika,“ sagði Kristinn Steindórsson sem hefur verið mjög drjúgur fyrir Blika í sumar og skoraði annað mark liðsins í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert