Ég verð að eiga þetta við sjálfan mig

Árni Vilhjálmsson náði ekki að skora úr vítaspyrnu gegn FH …
Árni Vilhjálmsson náði ekki að skora úr vítaspyrnu gegn FH í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Árni Vilhjálmsson aðalmarkaskorari Breiðabliks á þessu keppnistímabili sagði við mbl.is eftir ósigurinn gegn FH í Kaplakrika í dag, þar sem hann skaut m.a. yfir mark Hafnfirðinganna úr vítaspyrnu, að það væri svekkjandi að hafa ekki nýtt tækifæri til að ná fram hagstæðari úrslitum.

Tapið þýðir, ásamt sigri Víkinga á KR á sama tíma, að Blikar eru stigi á eftir Víkingum fyrir lokaumferðina næsta laugardag og verða því að vinna HK og treysta á að Víkingar vinni ekki Leikni á sama tíma.

FH-ingar slógu Blika talsvert út af laginu með því að pressa þá vel og trufla uppspil þeirra, sérstaklega í fyrri hálfleiknum, og Árni tók undir það að hluta.

„Já, þeir voru góðir í því sem þeir gerðu. Ég hef reyndar sjaldnast frá því ég byrjaði að spila fótbolta pælt mikið í því hvernig aðrir spila. Hvað okkur sjálfa varðar þá fannst mér við ekki ná okkur í gang í fyrri hálfleiknum. Ég veit ekki hvort það var spennustigið sem átti sök á því eða eitthvað annað. Auðvitað var mikið undir og kannski lokuðu þeir svona vel á okkur. Allavega fundum við ekki þær opnanir sem við höfum verið svo góðir í að gera í sumar í fyrri hálfleiknum.

Okkur tókst það mun betur í seinni hálfleik og spiluðum mjög vel nokkrum sinnum, meðal annars þegar við fengum vítaspyrnuna. Þar hefði ég getað jafnað þetta í 1:1," sagði Árni og var ekki sammála því að spennustigið hefði leikið sig grátt á vítapunktinum.

„Ég hef tekið vítaspyrnu í Evrópukeppni, vítaspyrnu á síðustu mínútu gegn ÍA, og þetta hafði ekkert með spennustig að gera. Ég ætlaði bara að setja boltann í mitt markið þegar ég sá að markmaðurinn hoppaði til hliðar, en svona lagað gerist bara," sagði Árni og notaði reyndar frasann gamalkunna: „shit happens.“

„Þetta var að sjálfsögðu engum að kenna nema mér sjálfum. Ég verð að eiga þetta við sjálfan mig og skora úr næstu vítaspyrnu sem ég tek," sagði Árni ennfremur.

Ásamt því að Árni náði ekki að jafna úr vítaspyrnunni féllu hlutirnir með Víkingum á lokamínútunum í Vesturbænum, með þeim afleiðingum fyrir Blika að þeir eru ekki lengur sigurstranglegastir í deildinni eins og þeir voru fyrir leiki dagsins.

„Já, það var alls konar dramatík í þessu en málið var að við þurftum fyrst og fremst að hugsa um okkur sjálfa, og við fengum færi til að ná betri úrslitum hérna í dag. Við gerðum það ekki og það er mest svekkjandi af þessu öllu saman.

Við erum ekki lengur með þetta í okkar höndum en þá verðum við bara að halda áfram með það sem var lagt upp í sumar, stefna að því að sýna góða frammistöðu í hverjum einasta leik og reyna að vinna hvern einasta leik. Við gerum okkar næsta laugardag og svo sjáum við til hvað gerist. Það er ekkert annað í stöðunni," sagði Árni Vilhjálmsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert