Pétur sló verulega á meistaravonir Breiðabliks

Pétur Viðarsson hefur betur gegn Jasoni Daða Svanþórssyni í leiknum …
Pétur Viðarsson hefur betur gegn Jasoni Daða Svanþórssyni í leiknum í Kaplakrika í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

FH-ingar settu stórt strik í baráttuna um Íslandsmeistaratitil karla í knattspyrnu í dag þegar þeir sigruðu Breiðablik, 1:0, í Kaplakrika með marki Péturs Viðarssonar.

Breiðablik er því með 44 stig fyrir lokaumferðina og á þar heimaleik gegn HK. Víkingar eru hinsvegar komnir með 45 stig eftir sigur á KR í dramatískum leik sem var að ljúka í Vesturbænum. Víkingar verða því meistarar ef þeir vinna Leikni á heimavelli í lokaumferðinni.

FH er sem fyrr í sjötta sæti, nú með 32 stig, en ljóst var fyrir þessa umferð að sjötta sæti yrði lokastaða Hafnfirðinganna á þessu Íslandsmóti, sama hvernig tveir síðustu leikirnir færu.

Blikar fengu færi strax á 4. mínútu þegar Árni Vilhjálmsson sendi á Gísla Eyjólfsson sem náði föstu skoti rétt innan vítateigs en Atli Gunnar Guðmundsson varði vel í marki FH. Atli var í fyrsta sinn í byrjunarliði FH-inga í deildinni þar sem Gunnar Nielsen tók út leikbann.

FH-ingar náðu hinsvegar ákveðnum undirtökum í leiknum með því að pressa Blikana framarlega og gefa þeim sem minnst færi á að ná upp sínu hraða og góða spili sem hefur einkennt þá undanfarna mánuði. Þetta virkaði vel og FH átti fyrir vikið hættulegri sóknir en skapaði sér þó ekki opin færi.

Það var síðan á 38. mínútu að FH-ingar náðu forystu. Eftir hornspyrnu Jónatans Inga Jónssonar frá hægri skallaði Matthías Vilhjálmsson boltann í markteig Blika og Pétur Viðarsson var rétt staðsettur við stöngina vinstra megin og skallaði hann í netið, 1:0.

Skot Gísla á fjórðu mínútu reyndist eina marktilraun Blika í fyrri hálfleiknum og eflaust er langt síðan slík tölfræði hefur sést hjá sókndjörfu Kópavogsliðinu sem hafði skorað 23 mörk í sjö sigurleikjum í röð fyrir leikinn í Kaplakrika í dag.

Leikurinn var áfram í járnum frameftir seinni hálfleik og fyrstu marktilraun hans átti Alexander Helgi Sigurðarson sem skaut rétt yfir mark FH af 20 metra færi á 59. mínútu.

Þar jókst sóknarþungi Blika og í kjölfarið áttu Kristinn Steindórsson og Árni Vilhjálmsson góðar skottilraunir þar sem Atli Gunnar varði af öryggi í bæði skiptin.

Árni skaut yfir markið úr vítaspyrnu

Sókn Blika virtist loks ætla að bera árangur á 77. mínútu þegar Árni var felldur í vítateig FH og dæmd var vítaspyrna. Árni fór sjálfur á punktinn en þessi annars örugga vítaskytta lyfti boltanum yfir mark FH-inga.

Og aftur slapp FH með skrekkinn á 80. mínútu þegar Andri Rafn Yeoman komst inn á vinstra markteigshorn. Atli Gunnar varði skot hans út í markteiginn þar sem boltinn sigldi naumlega framhjá Jasoni Daða Svanþórssyni.

FH-ingar áttu hinsvegar sín fyrstu færi í seinni hálfleik á 83. og 84. mínútu þegar Pétur Viðarsson og Baldur Logi Guðlaugsson áttu skot yfir og framhjá marki Breiðabliks.

Blikar sóttu og sóttu á lokakaflanum en gekk illa að koma sér í færi gegn baráttuglöðum FH-ingum sem vörðust af krafti og náðu að halda út til leiksloka.

Stigið sem Blikar misstu naumlega af hefði verið þeim gríðarlega dýrmætt en með jafnmörg stig og Víkingar hefðu þeir verið með örlögin í sínum höndum í lokaumferðinni. Nú þurfa þeir hinsvegar að fá aðstoð frá Leiknismönnum til að hreppa Íslandsmeistaratitilinn og um leið að sigra granna sína í HK sem sjálfir eru í harðri fallbaráttu.

Breiðablik náði ekki nema á köflum upp sínu leiftrandi spili en FH-ingar útfærðu sína leikaðferð nánast fullkomlega þar sem þeim tókst að loka á Kópavogsliðið á löngum köflum, nokkuð sem engu liði hefur tekist í margar vikur. Varnarleikur FH, með Pétur sem besta mann, var nánast fullkominn og fyrir aftan vörnina var Atli Gunnar Guðmundsson öryggið uppmálað í sínum fyrsta byrjunarliðsleik með FH í deildinni.

FH stöðvaði þarna sjö leikja sigurgöngu Breiðabliks og dramatíkin sem átti sér stað í Vesturbænum um svipað leyti og flautað var til leiksloka í Kaplakrika féll öll með Víkingum. Nú bíðum við laugardagsins 25. september þar sem úrslitin ráðast og þar kemur í ljós hvort það verður Víkingur eða Breiðablik sem verður Íslandsmeistari karla árið 2021.

FH 1:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Leik lokið FH vinnur 1:0 og setur stórt strik í reikninginn í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert