Davíð Smári Lamude, þjálfari Kórdrengja í 1. deild karla í knattspyrnu, var úrskurðaður í fimm leikja bann af Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ á dögunum fyrir framkomu sína í leik Kórdrengja og Fram sem fram fór 11. september í Breiðholti.
Davíð Smári fékk að líta rauða spjaldið í leiknum og var úrskurðaður í tveggja leikja bann fyrir það þar sem þetta var hans annað rauða spjald í sumar.
Hann fékk svo þriggja leikja bann ofan á það fyrir að rjúka inn á völlinn, eftir að hafa verið vikið af velli, ásamt því að rífa spjöldin af dómara leiksins, Agli Arnari Sigþórssyni.
Mál Davíðs var til umræðu í hlaðvarpsþættinum The Mike Show en 433.is greinir frá því að lögmaðurinn Stefán Karl Kristjánsson fari með mál Davíðs.
Stefán Karl bendir á að þeir Kassim Doumbia, fyrrverandi leikmaður FH, og Elfar Freyr Helgason, leikmaður Breiðablik, hafi báðir fengið þriggja leikja bann á sínum tíma fyrir sambærilega hegðun árin 2014 og 2019.