Lokaumferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, verður leikinn á laugardag. Þetta staðfesti Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, í samtali við RÚV í dag.
Það kom til tals um síðustu helgi að færa lokaumferðina fram á föstudag vegna slæmrar veðurspár um helgina.
Það hefur hins vegar ræst umtalsvert úr spánni og því ekkert því til fyrirstöðu að lokaumferðin fari fram á tilsettum tíma.
„Leikum á laugardag klukkan 14,“ sagði Birkir í samtali við RÚV.
Víkingur úr Reykjavík og Breiðablik heyja einvígi um Íslandsmeistaratitilinn en eitt stig skilur liðin að. Víkingur á heimaleik við Leikni úr Reykjavík og Breiðablik á heimaleik við HK.
Keflavík, HK og ÍA eru í harðri fallbaráttu þar sem eitt liðanna mun fylgja Fylki niður um deild og lið Keflavíkur og ÍA mætast einmitt suður með sjó.
Þá eru KA og KR í baráttu um þriðja sætið sem myndi gefa keppnisrétt í Evrópukeppni ef Víkingar verða bikarmeistarar.