Gamla ljósmyndin: 30 ár frá sigri Víkings

Morgunblaðið/Bjarni Eiríksson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Lokaumferð Pepsí Max-deildar karla í knattspyrnu verður leikin í dag og ráðast þá úrslitin á Íslandsmóti karla. Tvö lið geta orðið Íslandsmeistari. Annars vegar Víkingur og hins vegar Breiðablik. 

Þrjátíu ár eru síðan Víkingur varð síðast Íslandsmeistari karla í knattspyrnu. Ekki verður leikið í Garðinum í lokaumferðinni í dag en Víkingur varð Íslandsmeistari í Garðinum fyrir þremur áratugum. 

Víkingur vann þá Víði 3:1 eftir að hafa lent 1:0 undir í leiknum. Var staðan 1:0 að loknum fyrri hálfleik en í þeim síðari sendi Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, varamanninn Björn Bjartmarz á vettvang. Björn breytti leiknum og þar með niðurstöðu Íslandsmótsins með því að leggja upp mark fyrir Helga Bjarnason og skora sjálfur tvívegis.

„Athygli vekur að Björn hefur aldrei verið í byrjunarliði Víkings í sumar en kom nú inn á sem varamaður í áttunda sinn og gerði fyrstu mörk sín á tímabilinu,“ skrifaði Steinþór Guðbjartsson meðal annars í Morgunblaðið 17. september 1991 en hann fjallaði um leikinn í Garðinum og starfar enn á blaðinu. 

Björn dró hvergi undan þegar Steinþór ræddi við hann að leiknum loknum. „Þetta er stærsta stundin í lífinu,“ sagði Björn. 

Meðfylgjandi mynd birtist með viðtali við Björn í viðamikilli umfjöllun Morgunblaðsins um lokaumferðina. Þar sést Björn fagna með stuðningsmönnum Víkings þegar ljóst var að Íslandsbikarinn færi í Fossvoginn. Myndina tók Bjarni J. Eiríksson sem myndaði lengi fyrir Morgunblaðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert