Belgískur miðjumaður í Kópavoginn

Breiðablik hefur fengið tvöfaldan liðstyrk í dag.
Breiðablik hefur fengið tvöfaldan liðstyrk í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kvennalið Breiðabliks í knattspyrnu heldur áfram að styrkja sig fyrir komandi átök í Meistaradeild Evrópu. Belgíska landsliðskonan Zandy Soree er komin með leikheimild hjá Blikum og getur því tekið þátt í riðlakeppninni sem hefst í næstu viku.

Fótbolti.net greinir frá.

Soree er 24 ára miðjumaður sem var síðast á mála hjá Houston Dash, sem Andrea Rán Hauksdóttir leikur með, í bandarísku atvinnumannadeildinni.

Hún var hins vegar með lausan samning og gat því samið við Breiðablik og fengið leikheimild þrátt fyrir að félagaskiptaglugginn sé lokaður.

Fyrr í dag tilkynnti knattspyrnudeild Breiðabliks að Karen María Sigurgeirsdóttir væri búin að semja við liðið og að hún væri einnig komin með leikheimild fyrir riðlakeppni Meistaradeildarinnar vegna undanþágu sem Blikar gátu nýtt sér.

Breiðablik fær Frakklandsmeistara Parísar Saint-Germain í heimsókn eftir slétta viku í fyrstu umferð B-riðilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert