Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur samið við Karen Maríu Sigurgeirsdóttur um að leika með meistaraflokki kvenna næstu ár. Hún verður komin með leikheimild fyrir fyrsta leik liðsins í Meistaradeild Evrópu eftir slétta viku þrátt fyrir að félagaskiptaglugginn sé lokaður.
Karen María er tvítug og kemur frá uppeldisfélagi sínu Þór/KA, þar sem hún hefur verið í stóru hlutverki síðustu ár. Hún spilaði alla deildarleiki liðsins á nýafstöðnu tímabili og skoraði fimm mörk. Karen María á að baki þrettán leiki með yngri landsliðum Íslands og var fyrr á árinu valin í æfingahóp A-landsliðsins.
Í tilkynningu frá Breiðabliki segir að félagið kunni Þór/KA bestu þakkir fyrir liðlegheitin í tengslum við félagaskiptin þar sem samningur Karenar Maríu við Þór/KA átti að renna út þann 31.12.2021 og átti hún þar með að ganga formlega til liðs við Breiðablik þegar næsti félagaskiptagluggi opnar um áramótin.
„Samkvæmt reglum FIFA getur félag skráð leikmann utan félagaskiptaglugga til þess að leysa tímabundið af leikmann sem er í fæðingarorlofi. Breiðablik nýtti sér þetta ákvæði til þess að fá leikheimild fyrir Karen Maríu strax og verður hún því lögleg með Breiðabliki í Meistaradeild Evrópu sem hefst n.k. miðvikudag þann 6. október með stórleik Breiðabliks og París Saint-Germain.
Ljóst er að Breiðablik hefði ekki getað fengið leikheimild fyrir Karen Maríu í Meistaradeildinni nema með góðu samstarfi við Þór/KA. Við Blikar þökkum Þór/KA kærlega fyrir fagleg vinnubrögð og velvilja í okkar garð. Akureyringar geta fylgst stoltir með sínum fulltrúa á stóra sviðinu í vetur enda kemur Karen María úr gríðarlega öflugu starfi Þórs/KA,“ sagði í tilkynningunni.
Leikmaðurinn sem um ræðir og er í fæðingarorlofi er Rakel Hönnudóttir.