Byrjaði að dæma til að fá frítt á völlinn

Knattspyrnudómarinn Gunnar Oddur Hafliðason sýnir Gary Martin gula spjaldið í …
Knattspyrnudómarinn Gunnar Oddur Hafliðason sýnir Gary Martin gula spjaldið í sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er búinn að vera dómari síðan árið 2012 en ég var fimmtán ára gamall þegar ég byrjaði að dæma,“ sagði Gunnar Oddur Hafliðason knattspyrnudómari í samtali við mbl.is.

Gunnar er á leið í dómarabúðir á vegum Evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, í Nyon í Sviss ásamt Kristjáni Má Ólafs og Eysteini Hrafnkelssyni. 

Dómarabúðirnar eru haldnar einu sinni á ári en Knattspyrnusamband Íslands velur þrjá einstaklinga ár hvert, einn dómara og tvo aðstoðardómara, til að taka þátt í búðunum.

„Ég byrjaði að dæma eftir að ég gekk upp í annan flokk. Ég byrjaði bara að dæma til að fá frítt á völlinn og fá inn smá aukatekjur. Markmiðið var alltaf að vera áfram í boltanum en svo bara fannst mér þetta mjög gaman.

Eftir að ég kláraði annan flokkinn sá ég fram á það að ég myndi líklegast spila áfram í neðri deildunum ef ég myndi halda áfram í boltanum. Ég sá hins vegar fram á að ef ég myndi halda áfram að dæma gæti ég gert góðan feril úr því, ferðast erlendis, dæmt í efstu deild og jafnvel erlendis,“ sagði Gunnar.

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson er einn fjögurra milliríkjadómara Íslands.
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson er einn fjögurra milliríkjadómara Íslands. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Frestað vegna kórónuveirunnar

Ísland á fjóra milliríkjadómara í dag, þá Helga Mikael Jónasson, Ívar Orra Kristjánsson, Vilhjálm Alvar Þórarinsson og Þorvald Árnason, og er markmiðið með búðunum að undirbúa dómara fyrir milliríkjadómgæslu og þjálfun dómara.

„Við áttum að fara í þessar dómarabúðir í apríl 2020 en þeim var frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Hvert knattspyrnusamband í Evrópu velur sína efnilegustu dómara hverju sinni til þess að sækja námskeiðið í von um að þeir komist eins ofarlega og mögulegt er á þessum alþjóðalista dómara. Margir af bestu dómurum heims hafa sótt þetta námskeið, dómarar á borð við Michael Oliver sem dæmi.

Ég vonast fyrst og fremst til þess að fá dýrmæta reynslu á þessu dómaranámskeiði sem mun vonandi nýtast mér mjög vel í leikjum hérna heima á Íslandi. Markmiðið er svo bara að bæta sig áfram sem dómari og vonandi get ég hjálpað íslenskri dómgæslu að taka næsta skref. Með þátttöku á svona námskeiði getur maður líka miðlað sinni reynslu til annarra dómara hér á landi sem er mjög jákvætt,“ bætti Gunnar Oddur við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert