Stjórnarmenn Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, segjast ekki hafa komið að valinu á landsliðshóp karlalandsliðsins fyrir leikina gegn Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM.
Þetta staðfestu þeir í samtali við mbl.is í dag.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska liðsins undanfarinn áratug, var ekki í hópnum sem Arnar Þór Viðarsson, þjálfari liðsins, tilkynnti á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum í dag.
Rétt fyrir fund bárust fréttir af því að verðandi stjórn hefði meinað landsliðsþjálfaranum að velja Aron Einar. Arnar Þór landsliðsþjálfari neitaði staðfastlega fyrir þetta á fundinum og sagði að ákvörðunin hefði verið hans.
„Ég get aðeins dregið þá ályktun að komandi sjálfkjörin stjórn KSÍ hafi umboðslaus beitt sér fyrir því að mér yrði slaufað eins og fram hefur komið í fréttum á DV.is,“ segir meðal annars í fréttatilkynningu sem Aron Einar sendi frá sér rétt í þessu.
Mbl.is hefur rætt við nokkra fráfarandi og verðandi stjórnarmenn KSÍ í dag og hafa þeir allir neitað því staðfastlega að hafa haft eitthvað með þá ákvörðun að gera að Aron Einar var ekki valinn í landsliðshópinn.
Ný bráðabirgðastjórn tekur við á laugardaginn kemur á aukaþingi KSÍ sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica-hótelinu.