Ekki ósátt við fjarveru Arons Einars

Aron Einar Gunnarsson var ekki valinn í landsliðshópinn sem mætir …
Aron Einar Gunnarsson var ekki valinn í landsliðshópinn sem mætir Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ekki ósátt við þá ákvörðun að Aron Einar sé ekki í hópnum,“ sagði Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir, einn af forsvaramönnum aðgerðahópsins Öfga, í samtali við mbl.is.

Það vakti mikla athygli í gær þegar Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins undanfarinn áratug, var ekki valinn í íslenska landsliðshópinn fyrir leikina gegn Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM.

Stjórn KSÍ barst tölvupóstur frá aðgerðahópnum 27. september og var málið tekið fyrir á stjórnarfundi í Laugardalnum í gær.

Tölvupósturinn var flokkaður sem trúnaðarmál á fundinum en Tanja vildi ekki tjá sig um málefni tölvupóstsins í samtali við mbl.is.

„Það eina sem ég get sagt er að ég er mjög ánægð að við séum komin á þann stað að samfélagið sé farið að trúa þolendum,“ sagði Tanja.

„Vonandi heldur þessi þróun áfram og áfram Ísland,“ bætti hún við í samtali við mbl.is.

Aron Einar sendi sjálfur frá sér harðorða yfirlýsingu í gær þar sem hann gagnrýndi KSÍ harðlega og sagðist aldrei hafa gerst brotlegur gagnvart neinum eða neinni.

Aðgerðahópurinn Öfgar mótmælti fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ í síðasta landsleikjaglugga.
Aðgerðahópurinn Öfgar mótmælti fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ í síðasta landsleikjaglugga. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert