Hollenski knattspyrnumarkvörðurinn Guy Smit er genginn til liðs við Valsmenn og hefur samið við þá til tveggja ára.
Valsmenn staðfestu þetta á samfélagsmiðlum sínum nú síðdegis en Leiknismenn höfðu áður skýrt frá því að Smit væri á leiðinni á Hlíðarenda.
Smit er 25 ára gamall og hefur varið mark Leiknis í Breiðholti undanfarin tvö ár. Fyrst í 1. deildinni og svo í úrvalsdeildinni á þessu ári þar sem hann lék alla 22 leiki liðsins og átti drjúgan þátt í halda því í deildinni.
Hann var varamarkvörður hjá Nijmegen í Hollandi þegar Hannes Þór Halldórsson, núverandi markvörður Vals, var í liðinu og var síðan varamarkvörður B-deildarliðsins FC Eindhoven. Hjá Leiknismönnum varð Smit því aðalmarkvörður í fyrsta skipti á ferlinum.