Ég er ekki trúaður maður

„Þetta var bara einn af þeim leikjum sem þú getur horft á aftur og aftur og maður áttar sig ekki almennilega á því hvað kom fyrir,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslandsmeistara Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Víkingar unnu ótrúlegan 2:1-sigur gegn KR í Vesturbæ í 21. umferð úrvalsdeildarinnar þar sem Helgi Guðjónsson kom Víkingum yfir, 2:1, á 87. mínútu áður en Ingvar Jónsson, markvörður Víkinga, varði vítaspyrnu í uppbótartíma.

Sigurinn gerði það að verkum að Víkingar komust í lykilstöðu í baráttunni um Íslandsbikarinn fyrir lokaumferð deildarinnar þar sem þeir unnu nokkuð þægilegan sigur á Leikni úr Reykjavík í Víkinni, 2:0.

„Það var ljóst strax í fyrri hálfleik að það var illt á milli leikmanna á jákvæðan hátt. Ég skildi ekki umræðuna eftir leik um að leikmenn ættu að skammast sín enda mikið í húfi og fótbolti er leikur tilfinninga,“ sagði Arnar.

„Ég er ekki trúaður maður en það var eitthvað í loftinu þarna. Hugtakið að þetta hafi bara átt að gerast læddist klárlega að manni enda bæði Kári og Sölvi að leggja skóna á hilluna og það var eins og allir þeirra verndarenglar væru saman komnir þarna,“ sagði Arnar meðal annars.

Viðtalið við Arnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert