Jóhann Berg Guðmundsson leikmaður Burnley á Englandi hefur dregið sig út úr landsliðshópnum í knattspyrnu fyrir leikina gegn Armeníu og Liechtenstein eins og fram kom í gær.
Hann segir í viðtali við 433.is í dag að mál Knattspyrnusambands Íslands undanfarnar vikur hafi haft áhrif á þá ákvörðun sína, enda þótt hann hafi fyrst og fremst tekið hana þar sem hann sé tæpur vegna meiðsla og vilji gera allt sem í hans valdi standi til að vera í sem bestu formi með Burnley í vetur.
„Ég get alveg viðurkennt að það hafði áhrif á ákvörðun mína í þetta sinn að ég hef ekki verið fyllilega sáttur við vinnubrögð sambandsins undanfarin misseri,“ sagði Jóhann Berg við 433.is.